Færsluflokkur: Bloggar

Rógsbrellur Samfylkingarinnar

    Þeir fara mikinn, óvinir forsetans, þessa dagana og engum er hlíft. Jafnvel stuðningsmenn og vinir sitjandi forseta geta átt von á illu frá áróðursvélinni að Hallveigarstíg.

   Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar og sérstakur talsmaður þess að hin íslenska þjóð borgi Icesave innstæðurnar, birtir á vefsíðu sinni síðastliðinn mánudag ljósmynd af undirrituðum með forseta Íslands sem og fráleitar ásakanir um að undirritaður hafi verið dæmdur af íslenskum dómstólum fyrir hatursfull ummæli um aðra kynþætti.

   Skal það tekið skýrt fram að undirritaður er með hreint mannorð, það er að segja hefur aldrei verið dæmdur, og eru því ásakanir Vilhjálms Þorsteinssonar uppspuninn einn. Skal það einnig tekið fram að undirritaður hefur aldrei birt hatursfull ummæli um aðra kynþætti.

   Menn hljóta að spyrja sig hvert samfélagið er að þróast þegar menn eins og Vilhjálmur Þorsteinsson fá óáreittir að komast upp með að níða menn á vefsíðum sínum. Menn hljóta einnig að spyrja sig hvað vakir fyrir þessum gjaldkera Samfylkingarinnar og níðskrifum hans en varla eru slík níðskrif sett fram eingöngu til þess að fara í taugarnar á lyfjafræðing starfandi í Þýskalandi. Sennilega er svarið að finna í fyrri skrifum Vilhjálms en í fyrri skrifum hefur Vilhjálmur farið mikinn í baráttu sinni gegn fullveldi Íslendinga, gegn peningalegu sjálfstæði og hefur hann oftar en ekki gagnrýnt núverandi forseta fyrir það að vísa Icesave til þjóðarinnar.

   Með öðrum orðum er þetta uppspuni sem settur er af stað af óvildarmanni forsetans til þess að kasta skugga á kosningabaráttu þess forseta sem ásamt þjóðinni kom í veg fyrir efnahagslegt hryðjuverk samflokksmanna Vilhjálms.

   Þegar undirritaður sendi Vilhjálmi Þorsteinssyni skeyti þess efnis að þær ásakanir sem greint var frá hér að ofan væru fráleitar ásamt beiðni um að fjarlægja óhróðurinn neitaði Vilhjálmur að verða við beiðninni á þeim forsendum að ofangreindar ásakanir hefðu verið skrifaðar í einhverslags spurnarformi og því í lagi. Aðra eins rökleysu hefur undirritaður ekki lesið en varla má við öðru búast frá hendi mannleysu sem gerir lítið annað en að tala niður til þjóðarinnar og forsetans. Þrátt fyrir að vita svarið við meintri spurningu heldur maðurinn henni áfram til haga á vefsíðu sinni.

   Það að halda því fram að saklaus maður sé með refsidóm á bakinu er ámælisvert, það veit hver heiðvirður maður.

   Menn geta á grundvelli staðreynda dregið ályktanir og verið með gildisdóma, jafnvel kolrangar og órökréttar skoðanir sem verndaðar eru af tjáningarfrelsinu. Hins vegar eru rangar fullyrðingar um staðreyndir sem eru ærumeiðandi refsiverðar og sérstaklega er það ámælisvert þegar menn setja þær fram gegn betri vitund.

   Þessi hegðun gjaldkera Samfylkingarinnar er fráleit og þess má geta að lögfræðingur hefur fengið málið til umsagnar. 

 

Düsseldorf 22. maí 2012
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 24. maí 2012   


Leiðtogalaus þjóð

Ekkert lát virðist vera á þeirri sundrungu, því stjórnleysi og þeirri spillingu sem einkennt hefur stjórnmálastétt Íslands.  Þingmenn ganga kaupum og sölum eins og um ódýra skiptivöru sé að ræða. Ekki þarf meira en lof um ráðherraembætti, þótt embættistíminn verði með svo ólíkindum stuttur að engu getur mögulega verið hrint í framkvæmd, til þess að fá hina og þessa þingmenn til að selja samvisku sína. Virðist sem þingmenn, sem fara að hluta til með löggjafarvaldið, selji sig afar ódýrt fyrir takmarkaða hlutdeild að framkvæmdarvaldinu og eiga þátt í að óþjóðkjörnir formenn stjórnmálaflokka, ásamt ráðgjöfum, í krafti samtvinningar löggjafar- og framkvæmdarvalds ráða ekki aðeins lagasetningu heldur einnig framkvæmd þeirra.

   Sannkallað óþjóðkjörið fáræði virðist búið að festa sig í sessi, fáræði sem hefur nánast ótakmarkað vald til að bæði setja lög, staðfesta og hrinda í framkvæmd. Ekkert valdajafnvægi er til staðar.

   Gallinn við þetta fyrrnefnda óþjóðkjörna fáræði felst í því að þjóðin hefur lítið sem ekkert um það að segja hver fer með æðstu stöðu framkvæmdarvaldsins og skipar við hlið sér hóp ráðherra. Getur þá útkoman oft á tíðum orðið að hópur sjálfumglaðra uppskafninga, sem reynir frekar að þóknast fámennum valdahópum samfélagsins frekar en þjóðinni sem heild, er valinn til að gegna ráðherraembættum.

   Það ástand sem skapast hefur í íslensku stjórnmálalífi er ekki eðlilegt og ekki ásættanlegt. Það er óásættanlegt að þing þjóðarinnar með miklum meirihluta verji hagsmuni Breta og Hollendinga þegar íslenska þjóðin þarf svo sannarlega á vörnum að halda.

Það getur varla talist eðlilegt að leiðtogar þjóðarinnar tali hvívetna gegn hagsmunum hennar, tali fyrir eyðileggingu á gjaldmiðli hennar, tali fyrir afnámi fullveldis og komist upp með það. Þá er það afar óeðlilegt að stjórnmálamenn tali fyrir stórfelldri landsölu til útlendinga og að orkuframleiðsla fari í hendur einkaaðila þegar vitað er að slík framkvæmd mun engu góðu áorka. Þeir stjórnmálamenn sem tala fyrir slíku geta ekki annað en uppskorið algjöra fyrirlitningu almennings.

   Hvar er þjóðernisást þeirra sem á þingi sitja og vinna gegn gjaldmiðli þjóðarinnar og hafa með svikum unnið gegn sjálfstæðinu, þeirra sem vilja selja sjálft landið til erlendra stórfjárfesta og hafa nú þegar komið stórum raforkufyrirtækjum í hendur útlendinga. Skal allt selt á þessum dimmu tímum? Er forsjálnin engin eða er verið að borga þessum ráðamönnum í falda kosningasjóði?

   Gleymum ekki hvernig sérhagsmunakerfi bankanna borgaði stjórnmálaflokkum tugi milljóna í kosningasjóði. Það var nú einungis hluti sem komst upp. Það mál var aldrei rannsakað að fullu þegar í raun hefði átt að setja á fót stórfellda lögreglurannsókn. Varla voru þessir styrkir neitt annað en mútur.

   Gleymum því heldur ekki að bankamenn reyndu að bera fé á fyrrum forsætisráðherra Íslands að hans eigin sögn og að það sitja menn jafnt sem makar á þingi sem fengu stórfelld lán sem að lokum þurfti aldrei að endurgreiða. Þessi mál voru aldrei rannsökuð. Hvað eru annars því sem næst vaxtalaus lán til stjórnmálamanna sem aldrei þarf að endurgreiða annað en mútur?

   Tölum nú ekki um þá þingmenn sem fengu persónulega fleiri milljónir í kosningastyrki frá þeim sem ætlað er að hafa tæmt íslensku bankana innan frá, þá þingmenn sem flugu með einkaþotum bankamanna, og þeim þingmanni sem ætlað er að hafa gengið á fund forsvaramanna Landsbankans örskotsstundu fyrir hrun, í vitna viðurvist, og sagst vera ,,þeirra maður" eins viðurstyggilega og það hljómar. Hvernig getur slíkur maður setið sem þingmaður, maður sem hefur heitið örfáum hópi bankamanna algjöra hollustu?

   Er það furða að milljarðamæringar fái nú, þegar verið er að kúga fjölskyldurnar í landinu, afskriftir upp á fleiri tugi milljarða á sama tíma og þeir fá að halda sínum eignum, fjármunum og fyrirtækjum?

   Hvernig horfir þetta við almenningi sem þarf að endurgreiða öll sín lán og það með slíkum okurvöxtum að engin svipuð dæmi finnast í hinum vestræna heimi nema þá helst að skoðuð séu lánakjör skipulagðra glæpahópa? Breytir engu hvort um sé að ræða fjölskyldur sem ekki geta haldið jól eða fjölskyldur sem ekki geta keypt föt á börnin sín. Afskriftirnar fara til þeirra sem eyðilögðu landið svo að þeir geti haldið áfram sukkinu.

   Þarf að kúga þjóðina svo harkalega að hún sér ekki annað í spilunum en að ganga á svig við landslög? Vilja ráðamenn landsins misbjóða almenningi upp að því marki hann tekur lögin í sínar eigin hendur? Í hvaða stöðu er hinn almenni fjölskyldufaðir sem borgar helming sinna tekna til kerfisins sem í þakkarskyni snýr baki í hann, faðir sem alla tíð hefur sýnt kerfinu virðingu, alla tíð farið eftir landslögum en getur nú hvorki haldið jól né séð fyrir fjölskyldu sinni því kerfið er að setja allt fjármagnið í hina fáu?

   Sannarlega er illa komið fyrir þjóðinni þegar leiðtogar hennar á erfiðum tímum brugga henni launráð. Þjóð með slíka leiðtoga er leiðtogalaus þjóð.

 

Düsseldorf 17. janúar 2012
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 27. nóvember 2012  


Þjóðin skal fá valdið

Nú sitja þeir og skjálfa, þeir sem öllu vilja ráða, þeir sem öllu ráða og illa hafa farið með vald sitt. Óttinn við að missa völdin ber þá yfirliði og gera þeir nú lítið annað en að tala niður allar hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur svona rétt á milli þess sem þeir ákveða hvaða auðlind skal næst fara í hendur örfárra og hvort framselja eigi fullveldi þjóðarinnar til embættismanna staðsettra á meginlandi Evrópu.

   Í lengri tíma hafa ákveðnir stjórnmálamenn á Íslandi svívirt núgildandi stjórnarskrá og með klækjum haft af þjóðinni þann arf sem forfeðurnir gáfu til okkar Íslendinga. Svo reyna þessir sömu menn, sem á sínum tíma gáfu bankamönnum lausan tauminn til að stýra landinu, að segja þjóðinni að henni sé ekki treyst fyrir því að ákveða sín eigin örlög.

   Nú þegar kosið verður til stjórnlagaþings þarf þjóðin að standa saman og hún þarf að kjósa á þingið einstaklinga sem vilja aukna aðkomu þjóðarinnar að löggjöfinni, einstaklinga sem vilja verja sjálfstæðið og einstaklinga sem sveiflast ekki eftir því hvernig vindar blása. Það þarf að koma á lýðræðisumbótum.

   Þjóðin þarf að fá vald til að kjósa um stór ágreiningsmál. Það gengur ekki miklu lengur að örfáir geti arðrænt þjóðina. Þjóðin þarf að standa saman og kjósa til stjórnlagaþings. Það er okkar leið og jafnvel þótt sú leið verði að lokum tekin frá okkur eða stjórnlagaþingið mistakist á einhvern hátt þá finnum við nýja leið og nýja von.

   Við megum aldrei missa vonina, aldrei láta landráð afskiptalaus og aldrei gefast upp. Það var íslenska þjóðin sem stoppaði Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu og þeirri þjóð er treystandi. Gleymum því aldrei.

 

Góðbær 23. nóvember 2010
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 26. nóvember 2010 

 


Barátta þjóðarinnar

Það verður að teljast til fádæmis að þjóð í hinum vestræna heimi geti með elju sinni hrakið ríkisstjórn frá völdum.

   Elja og þrautseigja Íslendinga er mikil. Dugnaður og þjóðernisstolt skipar stóran sess í hjarta þjóðarinnar enda hefur henni jafnvel tekist að sigra heilu heimsveldin í stórum milliríkjadeilum, má þá einna helst nefna landhelgisdeiluna og sjálfstæðisbaráttuna.

   Einhver gjá virðist því miður hafa myndast milli ráðamanna þjóðarinnar, þar að segja þeirra sem lagalega eiga að vinna fyrir þjóðina, og þjóðarinnar þegar kemur að þjóðar og þjóðernisstolti.

   Á meðan þjóðin berst fyrir sjálfsákvörðunarrétti sínum eru ráðamenn að vinna gegn honum, á meðan þjóðin berst hetjulega gegn kúgun, valdníðslu og niðurlægingu erlendra ríkja og stórríkjasambanda taka ráðamenn þjóðarinnar slíkri valdníðslu fagnandi og í sumum tilfellum hvetja til aukinnar niðurlægingar og þjóðlegrar kúgunar.

   Jafnvel hinir hógværustu menn íhuga að rísa upp gagnvart slíkum ráðamönnum, skiljanlega, enda getur þjóðin ef illa fer endað í langvinnum, ef ekki ævarandi, skuldaflækjum með tilfallandi lífskjaraskerðingum.

   Langlundargeð þjóðarinnar er ekki óendanlegt og í fleiri en einu máli er henni misboðið.

   Sennilega verður litið aftur til þessara tíma og horft með stolti á framgöngu þjóðarinnar sem hefur sannarlega sýnt mátt sinn og megin þótt lymskuaðferðum hafi verið beitt gegn henni. Sameinuð stóð hún og stendur enn. Ósigur verður aldrei samþykktur af hálfu hennar, fullveldisafsal ekki heldur.

   Kerfisbreytingar eru nauðsynlegar í okkar þjóðfélagi. Koma þarf í veg fyrir áframhaldandi alræðisvald ríkisstjórnar yfir löggjöfinni, hvers flokka sem hún er. Í því samhengi verður það að teljast varhugavert að þingstörf liggi niðri í lengri tíma þegar ríkisstjórn er löskuð og/eða óstarfhæf eins og kemur fyrir.

   Samkvæmt íslensku stjórnarskránni, sem og í flestum lýðræðisríkjum, á ríkisstjórn aðeins að fara með framkvæmdarvald þótt hefð sé fyrir því hérlendis að sitjandi ríkisstjórn, á hverjum tíma og breytir þá engu hvers flokka, taki sér alræðisvald yfir löggjafanum. Með þessu fyrrnefnda alræðisvaldi hefur formönnum, oftast tveggja, stjórnmálaflokka í gegnum tíðina tekist að fara þvert á vilja þjóðarinnar í hverju málinu á fætur öðru.

   Sé stjórnarskráin skoðuð segir í 15. gr. hennar: ,,Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim." Þessi grein stjórnarskrárinnar, eins og því miður margar, hefur ekki verið virk. Hugsanlega er að þessi slæma hefð hafi skapast þegar Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, var þingvalinn forseti og hugsast getur að hann hafi  hreinlega ekki viljað taka að sér slíkt vald óþjóðkjörinn. Augljóst er þó að forsetinn á samkvæmt stjórnarskrá að skipa ráðherra en ekki óþjóðkjörnir formenn stjórnmálaflokka.

   Von hlýtur að skapast í hugum og hjörtum margra þegar litið er til þess að forsetakosningar fara fram 2012. Vonandi stígur fram, í þeim kosningum, leiðtogi sem er óhræddur að taka sér það vald sem sjálf stjórnarskráin ekki aðeins heimilar heldur segir til um.

   Löngu er orðið tímabært að stjórnarskráin verði virt. Það má ekki líðast að sjálf grundvallarréttindi Íslendinga séu virt að vettugi til þess eins að óþjóðkjörnir formenn stjórnmálaflokka með örfá atkvæði á bakvið sig hafi alræðisvald yfir sjálfu Alþingi Íslendinga.

 

Reykjavík 17. mars 2010
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 27. mars 2010 


Styrkur krónunnar

Á síðastliðnum misserum hefur þeim farið ört fjölgandi sem fara jákvæðum orðum um íslensku krónuna. Ekki aðeins að krónan hafi fengið jákvæða dóma frá nóbelsverðlaunahafanum í hagfræði, Jósef Stiglitz, heldur hefur hún sýnt sig vera bjargvættur þjóðarinnar á krepputímum. Hitt er svo annað mál að það virðist sem hluti íslenskra ráðamanna sé markvisst að vinna gegn krónunni, þá með óútskýrðum óhóflegum lántökum í erlendri mynt. Munu þessi óútskýrðu lántökur valda því að stór hluti, ef ekki mestur hluti, gjaldeyristekna landsins fer í árlegar vaxtagreiðslur, sem auðveldlega eiga eftir að vinda upp á sig, og valda enn frekari veikingu íslensku krónunnar.

   Í lengri tíma hafa óvildarmenn krónunnar, sem að mestu koma úr röðum fyrrum bankamanna eða talsmanna þeirra, talað fyrir upptöku Evru, Dollars eða annars gjaldmiðils. Sé litið til baka var talsmáti þeirra oftast dylgjukenndur og með mikilli rökleysu en þó í krafti einokunar á fjölmiðlamarkaði tókst þessum bankamönnum, sem sannarlega blóðmjólkuðu samfélagið, og talsmönnum þeirra að kasta tálsýn á bæði greinda og vel hugsandi menn.

   Þeir tímar eru þó vonandi liðnir að fyrrum bankamenn, fjárglæframenn, og talsmenn þeirra geti í krafti einokunar á fjölmiðlamarkaði kastað fram draumkenndri rökleysu og sagt hana sannindi.

   Atvinnuleysi, minnkandi verðmætasköpun, fjöldagjaldþrot fyrirtækja, lífskjaraskerðing og aðrar hremmingar einkenna nú Evrulönd á borð við Spán og ekki síst Írland. Í raun er staðan á Írlandi svo grafalvarleg að virtustu hagfræðingar þarlendis telja að þjóðin hafi í raun aðeins tvo valkosti, taka upp sjálfstæða mynt aftur eða horfa upp á þjóðargjaldþrot, langvinna kreppu og atvinnuleysi sem engan enda mun sjá á. Á Spáni er atvinnuleysi er almennt atvinnuleysi tæplega tuttugu prósent og atvinnuleysi ungmenna að nálgast fjörtíu prósent.

   Sennilega ef óvildarmenn krónunnar fengið sínu framgengt væri hér atvinnuleysi svipað og á Spáni og jafnvel verra.

   Vegna krónunnar hafa Íslendingar, í tugi ára, ferðast ódýrt út um allan heim. Vegna krónunnar hafa Íslendingar, einnig í tugi ára, búið við eitt minnsta atvinnuleysi sem um getur í Evrópu. Vegna krónunnar hafa framleiðslufyrirtæki landsins blómstrað. Vegna krónunnar mun kreppan vera styttri á Íslandi en í þeim Evrópulöndum sem hafa ekki sjálfstæða mynt svo lengi sem ráðamenn þjóðarinnar hætta að vinna gegn henni.

   Með krónuna sem gjaldmiðil geta Íslendingar skapað, frjálsara, jafnara og betra þjóðfélag.

 

Reykjavík 21. október 2009
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 12. desember 2009 


Pétur Guðjohnsen - Minningargrein

Pétur Guðjohnsen eða afi Pétur eins og ég þekkti hann var mér afar kær. Á ég margar og góðar minningar af honum frá barnæsku minni, þá einna sérstaklega þeim fjölmörgu veiðiferðum sem við bræðurnir fórum í með honum. Það var þó ekki fyrr en ég hóf nám við Háskóla Íslands, og þurfti að finna mér hljóðlátt umhverfi til að læra í, sem við afi urðum nánir og hann fór að hafa mikil áhrif á lífsskoðanir mínar.

Fyrst um sinn, eftir að ég hóf reglulegar heimsóknir til afa og ömmu, deildum við hart og áttum mikil skoðanaskipti um samfélagið. Urðu oft heimsóknir, sem í grunnin voru ætlaðar skólabókalestri, að nær óstöðvandi samræðum um stjórnmál og kom það oftar en ekki fyrir að námið var sett á bið til að hlusta á þá miklu speki sem bjó í honum afa gamla.

Ég minnist þess að oftar en ekki sat í mér tilhlökkun að komast úr skólanum til þeirra ömmu og afa til að sitja í stofunni með honum afa og hlusta á bæði sögur frá hans yngri árum sem og ádeilur hans á ýmist samfélagslegt óréttlæti.  

Sannarlega á ég eftir að sakna þeirra tíma þegar við afi sátum saman í stofunni, horfðum á ýmist þingfundi, norsku fréttirnar, dýralífsþætti eða annað, spjölluðum um samfélagið og biðum eftir góðum mat frá henni ömmu. Sárt þykir mér að hugsa til þess að þeir tímar eru liðnir en það er mér huggun að vita til þess að minning hans og orðstír mun lifa áfram um ókomna tíð því eins og segir í gamalli speki:

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Þegar ég lít til baka og horfi yfir þau ár sem ég hef farið nokkuð reglulega í heimsóknir til hans afa, og hennar ömmu, get ég sagt það með vissu að hann afi er með þeim stærri áhrifavöldum á lífsskoðanir mínar og kveð ég hann með miklum söknuði.

 

Reykjavík 24. nóvember 2009
Viðar H. Guðjohnsen


Undir erlendu valdi

Í nokkurn tíma hefur íslenska þjóðin þurft að þola það sem vel má nefna efnahagslegar árásir, hótanir og tilraunir til niðurlægingar frá þjóðum sem í gegnum tíðina hafa talist til vinaþjóða. Oftar en ekki hafa stríð og styrjaldir brotist út þegar framferði nágrannaþjóða verður með slíkum hætti að ein þjóð reynir að kúga aðra, fer með hótanir eða gerir tilraunir til niðurlægingar.

   Í raun er hægt að koma með rök fyrir því að framferði vestrænna þjóða í garð annars fullvald ríkis, innan Evrópu, hafi ekki verið með slíku móti frá því Frakkar kúguðu og niðurlægðu Þjóðverja, eftir fyrri heimstyrjöldina, með Versalasamningunum 28. júní 1919. Stuttu seinna braust út ný styrjöld í Evrópu og er það nánast óumdeilt að stór þáttur í þeirri atburðarrás var sökum þess að þýskum almenningi var gert að taka á sig ósanngjarnar byrðar fyrir atburði sem sá hinn sami almenningur hafði ekki vald á að stýra og bar ekki ábyrgð á.

   Á slíkum tímum, þegar einstaka þjóðir eða ríkjasambönd sýna kúgunartilburði, er nauðsynlegt að stjórnir þeirra sem eru mótfallnar slíkum tilburðum standi fast á réttindum sínum, jafnvel þótt það sé erfitt. Það hefur nefnilega sýnt sig í gegnum tíðina að þeir þjóðhöfðingjar sem stunda hótanir, kúganir og tilraunir til niðurlægingar hætta ekki fyrr en hart mætir hörðu.

   Það er í raun alveg stórfurðulegt að eftir kúgunartilburði fyrrum nýlenduþjóða, sem í lengri tíma blóðmjólkuðu heilu heimsálfurnar, í garð Íslendinga sé það uppgjafartalsmáti sem einkennir málflutning einstakra íslenskra ráðamanna og sérstaklega undarlegt í ljósi þess að íslenska þjóðin þarf nauðsynlega á sameiningu að halda.

   Hitt er svo annað mál að það virðist sem sumir ráðamenn þjóðarinnar telji uppgjöf skásta kostinn í stöðunni. Þessi óútskýrði uppgjafartalsmáti er óásættanlegur og í raun, vegna alvarleika málsins, verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

   Íslenskir ráðamenn eru kjörnir til að vinna fyrir hagsmuni Íslands en ekki til þess að ganga erinda erlendra sjóða eða ríkja og verða að hafa kjark í sér til að fara einu réttu leiðina í Icesave deilunni, þar að segja, að standa vörð um hagsmuni og mannréttindi hins íslenska almennings að greiða ekki skuldir einkafyrirtækja.

   Komið hefur fram í fjölmiðlum að ráðamenn þjóðarinnar geti ekki tekið ákvarðanir án þess að fá samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða ráðamanna staðsetta á meginlandi Evrópu þrátt fyrir að slík stjórnsýsla stangist á við landslög.

   Góðar hugmyndir um hvernig styrkja má gjaldeyri þjóðarinnar án óhóflegra lána eru slegnar út af borðinu sem og flestar hugmyndir um sneggri efnahagsbata. Virðist sem ákveðinn farvegur sé í sköpun sem miðli að algjörri eyðileggingu á sjálfstæði þjóðarinnar.

   Forsætisráðherra þjóðarinnar neitar að samþykkja neitt annað en risalán sem nota á til að borga upp innistæðureikninga í Hollandi og Bretlandi, þetta gerir forsætisráðherrann til þess að tryggja annað risalán sem á að nota til að kaupa upp krónubréf og þar með hjálpa erlendum fjárfestum að hagnast á kostnað íslensku þjóðarinnar.

   Þessi gjörningur er lítið annað en vítavert landráð og Íslendingar verða að gera allt í sínu valdi til að stöðva þetta fyrrnefnda þjóðníð.

   Sagan hefur sýnt að þegar íslensku þjóðinni er ögrað er hún hvað sameinuðust og þegar þjóðin stendur saman tekst henni að sigra heilu heimsveldin. Gleymum ekki að það var íslenska þjóðin sem árið 1973 gerði Henry Kissinger, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna furðu lostinn, fyrir hreint út sagt ótrúlegan baráttuvilja. Seinna meir skrifaði Kissinger: "Hér höfðum við 200.000 manna eyþjóð sem hótaði að fara í stríð við fimmtíu milljón manna heimsveldi, út af þorski. ... Íslensku ráðherrarnir héldu fast við stefnu sem fyrr á öldum hefði verið dauðadómi líkust. Mér varð hugsað til þeirra orða Bismarcks [fyrsta kanslara Þýskalands á nítjándu öld] að vald hinna veiku ykist við óskammfeilni þeirra en þeir sterku veiktust vegna eigin fjötra."

   Þó má ekki gleyma að þrátt fyrir hinn ótrúlega baráttuvilja meirihluta þjóðarinnar voru einstaka ráðamenn og einstaklingar sem vildu uppgjöf og unnu þar með, í fávisku sinni, gegn eigin þjóð en sem betur fer var slíkur málflutningur miskunnarlaust stöðvaður af vel hugsandi mönnum.

   Gömlu gildin um þjóðlega sameiningu gegn erlendum yfirráðum þurfa að fá aukin forgang. Hver einn og einasti vel hugsandi Íslendingur þarf að grípa til þess ráðs að stöðva það uppgjafartal sem hefur einkennt suma ráðamenn þjóðarinnar sem og, þó sífellt fámennari hóp, einstaklinga í hirð þeirra.

   Með markvissum og beittum málflutningi, hollustu við sjálfstæðið og mikilli elju getur þjóðin komið í veg fyrir þetta samfélagslega hryðjuverk sem mun, ef í gegn fer, valda stórri lífskjaraskerðingu landsmanna til lengri tíma.

 

Reykjavík 13. október 2009
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 24. október 2009 


Frjálst Ísland

Allt frá því sjálfstæðisbaráttu Íslendinga lauk með sjálfstæðisyfirlýsingu og fullu valdi yfir löggjöf sinni 17. júní árið 1944, hundrað árum eftir endurreisn Alþingis Íslendinga árið 1844, hefur mikil góðærissveifla og þjóðarsameining einkennt hið íslenska samfélag.

Góðæri sem má að miklu leiti rekja til nokkurra þátta en þó einna helst þriggja grundvallarþátta velmegunar og þjóðarstyrks.

Fyrir það fyrsta hefur íslenska þjóðin, í krafti þess að hún fékk algert frelsi til sjálfsákvarðana með sjálfstæðisyfirlýsingu sinni, bæði getað sett verndartolla á þjóðarframleiðslu sína sem og styrkt alla innanlandsframleiðslu.

Sú verndarstefna skapað grundvöll fyrir bæði sterkri innanlandsframleiðslu og sjálfbæri þjóðarinnar í matvælaframleiðslu.

Í öðru lagi má rekja betri lífskjör íslensku þjóðarinnar til þeirra nær ótakmörkuðu náttúruauðlinda sem landið og landhelgin hefur upp á að bjóða.

Nær ótæmandi orkubirgðir sem nýta má til kyndingar eða raforkuframleiðslu, hreint vatn og sennilega ein bestu fiskimið heimsins.

Þar sem órjúfanleg tengsl eru á milli eignarhalds íslensku þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum sínum og lífsbjörg þjóðarinnar er það algerlega nauðsynlegt að eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindum sínum sé tryggt á meðan land er byggt.

Í þriðja lagi má rekja góðæristímabil þjóðarinnar til fullveldisins þ.e. að löggjafarvaldið er að öllu leiti í höndum þjóðkjörinnar stjórnar hennar. Vald sem gerir okkur kleift að viðhalda og stefna að sjálfbæru þjóðfélagi, vald sem gerir okkur kleift að halda náttúruauðlindum þjóðarinnar í eigu þjóðarinnar, vald sem má aldrei afnema.

Eins mesta hætta sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir er að þetta vald sem við í hundrað ár börðumst fyrir hverfi frá okkur, að auðlindir Íslands sem í þúsund ár hafa verið eign Íslendinga fari í hendur erlendra auðhringa og að íslensku matvælaframleiðslunni, fæðuöryggi landsmanna, verði bolað úr landi.

Barátta Íslendinga gegn erlendum yfirráðum er hafin. Þjóðarsamstaða hefur ekki verið íslensku þjóðinni jafn mikilvæg frá því Íslendingar börðust fyrir sjálfstæði sínu. Í raun er staðan svo alvarleg að hver einn og einasti Íslendingur þarf að gera sitt til þess að sporna gegn þeim voðaverkum sem kunna að vera unnin á velmegun, sjálfstæði og framtíð íslensku þjóðarinnar.

Undir venjulegum kringumstæðum gæti almenningur treyst á kjörna fulltrúa sína en því miður virðist sem fulltrúarnir fyrrnefndu séu farnir að vinna fyrir annaðhvort sérhagsmuni auðhringa eða erlendra ríkja. Íslenska þjóðin hefur verið sett aftast í röðina. Á meðan fjárhagur þjóðarinnar brennur eru fulltrúar íslensku þjóðarinnar ýmist að varpa skuldum bankamanna á saklausan almenning, selja orkuauðlindir til erlendra stórfjárfesta eða undirbúa valdaframsal til stofnanna staðsetta á meginlandi Evrópu, valdaframsal sem verður án efa stórfeldasta spellvirki sem unnið hefur verið á íslensku þjóðinni frá landnámi fari það í gegn.

Íslendingar þurfa að stöðva þessa þróun, og þeir geta það. Þjóðin sem stóð ein gegn heimsveldi Breta í deilunni um fiskimiðin sín og bar að lokum sigur úr bítum lætur ekki stöðva sig svo auðveldlega. Gleymum ekki að á þeim tíma voru líka til einstaklingar og ráðamenn sem vildu ekki styggja Breta, þá voru líka til einstaklingar og ráðamenn sem vildu lúffa fyrir erlendu valdboði, en þjóðin reis upp og það var þjóðin sem sigraði deiluna. Þjóðin neitaði að taka til umfjöllunar málflutning þeirra sem vildu gefast upp án baráttu og þjóðin hefði barist eins lengi og nauðsyn hefði verið til þess að fá sínu framgengt. Þetta er þjóðin sem enn býr á Íslandi, þjóðin sem nú berst fyrir frelsi sínu og sjáfbærni og þótt kjörnir fulltrúar og örfáir einstaklingar í hirð þeirra vilji gefast upp mun íslenska þjóðin aldrei gefast upp.

 

Reykjavík 25. september 2009
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 9. október 2009 


Þjóð í stríði

„Stríð er eitt af þessum hugtökum sem allir vita hvað er... þangað til að því kemur að skilgreina það."

Með sanni má segja að Íslendingar séu að upplifa tíma sem skilgreina mætti sem vopnlausa stríðstíma.

Valdníðsla og tilraunir til efnahagslegrar kúgana einkennir nú viðmót þjóða, sem eitt sinn töldust til evrópska vinaþjóða, þjóða sem nú í nálægt tvo áratugi hafa verið aðilar að svokölluðu vinasamstarfi Evrópuþjóða byggt á samstarfssamningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Þau grundvallaratriði sem kveðið er á um í samstarfssamningi Evrópuþjóðanna hafa nú verið brotin, eins og segir í upphafi þess samnings þá er höfuðáherslan lögð á „uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda" og haft sé í huga að „mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði er grundvallist á sameiginlegum reglum."

Með samstarfssamningi Evrópuþjóðanna, hinum svokallaða EES samning, var þar að segja komið á fót sameiginlegum markmiðum um gagnkvæma virðingu, viðurkenningu á mannréttindum þeirra þjóða sem undir hann gengust sem og að samningsþjóðirnar yrðu undantekningarlaust að taka inn þær reglugerðir og þau lagaákvæði sem ákveðnar væru í Brussel sem féllu undir samninginn.

Nú er það komið svo fyrir íslensku þjóðinni að bankakerfi, með leikreglum sem Evrópusambandið hannaði, er hrunið og skuldum þess á hugsanlega að varpa yfir á íslenskan almenning.

Svæsin eignarupptaka, í anda nýlenduhugsunar, mun svo að öllum líkindum eiga sér stað þegar skuldavafningurinn hefur undið upp á sig eins og með hvert annað okurlán.

Í þessu samhengi virðist það oft gleymast að leikreglur íslenska bankakerfisins komu að mestu frá Evrópusambandinu og í raun hafði íslenska ríkið ekki rétt á að hagræða þeim eftir okkar hag né mátti íslenska ríkið hindra stækkun þess.

Hvar liggur þá ábyrgðin? Varla liggur hún hjá þeim sem hvorki sömdu reglurnar né höfðu vald til þess að hindra það bankarán, sem átti sér stað, bæði hérlendis sem og á heimasvæði nýlenduþjóðanna sem nú ætla sér að blóðmjólka, nýju nýlenduna sína, Ísland.

Nei, ábyrgðin liggur svo sannarlega ekki hjá íslensku þjóðinni.

Hvað gengur þeim íslensku ráðamönnum þá til sem nú ætla að ábyrgast bankarán sem í raun kemur íslenskri lögsögu ekkert við?

Sennilega liggur svarið í einfaldleika og grunnhyggni þeirra sömu ráðamanna. Þeir sjá ekki eða þora ekki að sjá það sem liggur fyrir framan þau.

Kjarni málsins liggur í hvort íslenskur almenningur beri lagalega ábyrgð á gjörðum örfárra óreiðumanna.

Lagaleg óvissa af stærðargráðu sem í flestum ríkjum yrði annað hvort leyst í dómstólum eða í stríði því engin ríkisstjórn setur erlendar þjóðir í forgang og dæmir sína eigin þjóð fátækt sem engan endi sér á.

Ísland er með öðrum orðum, nú þegar, komið í það sem kalla mætti vopnlaust stríð.

Vopnlaust stríð sem mun enda með langvinnri blóðmjólkun á íslenskum auðlindum og íslenskum almenningi.

Hvað halda annars íslenskir ráðamenn að Bretar og Hollendingar geri þegar IceSave skuldin, og öll þessi lántaka, er búin að vaxa á okurvöxtunum? Þessar vinaþjóðir sem eru nú þegar að kúga okkur?

Þær gera það sem nýlenduþjóðir gera best. Þær kúga þegna annarra þjóða í eiginhagsmunaskyni.

 

Reykjavík 29. júlí 2009
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 7. ágúst 2009 


Óábyrgt kjánatal og blekkingar

Í Morgunblaðinu 7. Júlí birtist grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi fjármálaráðherra. Í grein sinni fer Jón mikinn og slær ekkert af dylgjum sínum um greind fróðustu og virtustu lögfræðinga Íslands.

Jafnframt reynir þessi fyrrum fjármálaráðherra, sem í ráðherratíð sinni var því sem næst hrakinn úr embætti  vegna umdeildra áfengiskaupa, sitt besta að gera grein fyrir því af hverju saklaus íslenskur almenningur á að fórna öllu innra kerfi landsins, heilbrigðis- og menntakerfi til að borga skuldir fjárglæframanna. Þetta gerir Jón Baldvin með einstaklega listrænum útúrsnúning.

Jón Baldvin vitnar í alls kyns skýrslur frá hinum og þessum stofnunum eða jafnvel í skáldsagnarrit fyrirgreiðslufræðinga þótt hann sjálfur viti vel að kjarni málsins liggur í hvort íslenskur almenningur beri lagalega ábyrgð á gjörðum örfárra óreiðumanna.

Lagaleg óvissa af stærðargráðu sem í flestum ríkjum yrði annað hvort leyst í dómstólum eða í stríði því engin ríkisstjórn setur erlendar þjóðir í forgang og dæmir sína eigin þjóð fátækt sem engan endi sér á.

Þeir sem ganga svo harkalega að saklausum til að innheimta skuldir annarra eru með réttu lítið annað en níðingar og slíkt þekkist aðeins meðal harðsvíraðra handrukkara.

Íslenska þjóðin, þjóðin sem sigraði Breta í þorskastríðinu, þjóðin sem hefur blóð víkinga í æðum og barðist í hundrað ár fyrir sjálfstæði sínu, á betra skilið en kjarklausa ráðamenn sem í sífellu sýna bæði undirlægjuhátt og gunguskap.

 

Reykjavík 7. júlí 2009
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 9. júlí 2009 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband