Þjóð í stríði

„Stríð er eitt af þessum hugtökum sem allir vita hvað er... þangað til að því kemur að skilgreina það."

Með sanni má segja að Íslendingar séu að upplifa tíma sem skilgreina mætti sem vopnlausa stríðstíma.

Valdníðsla og tilraunir til efnahagslegrar kúgana einkennir nú viðmót þjóða, sem eitt sinn töldust til evrópska vinaþjóða, þjóða sem nú í nálægt tvo áratugi hafa verið aðilar að svokölluðu vinasamstarfi Evrópuþjóða byggt á samstarfssamningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Þau grundvallaratriði sem kveðið er á um í samstarfssamningi Evrópuþjóðanna hafa nú verið brotin, eins og segir í upphafi þess samnings þá er höfuðáherslan lögð á „uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda" og haft sé í huga að „mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði er grundvallist á sameiginlegum reglum."

Með samstarfssamningi Evrópuþjóðanna, hinum svokallaða EES samning, var þar að segja komið á fót sameiginlegum markmiðum um gagnkvæma virðingu, viðurkenningu á mannréttindum þeirra þjóða sem undir hann gengust sem og að samningsþjóðirnar yrðu undantekningarlaust að taka inn þær reglugerðir og þau lagaákvæði sem ákveðnar væru í Brussel sem féllu undir samninginn.

Nú er það komið svo fyrir íslensku þjóðinni að bankakerfi, með leikreglum sem Evrópusambandið hannaði, er hrunið og skuldum þess á hugsanlega að varpa yfir á íslenskan almenning.

Svæsin eignarupptaka, í anda nýlenduhugsunar, mun svo að öllum líkindum eiga sér stað þegar skuldavafningurinn hefur undið upp á sig eins og með hvert annað okurlán.

Í þessu samhengi virðist það oft gleymast að leikreglur íslenska bankakerfisins komu að mestu frá Evrópusambandinu og í raun hafði íslenska ríkið ekki rétt á að hagræða þeim eftir okkar hag né mátti íslenska ríkið hindra stækkun þess.

Hvar liggur þá ábyrgðin? Varla liggur hún hjá þeim sem hvorki sömdu reglurnar né höfðu vald til þess að hindra það bankarán, sem átti sér stað, bæði hérlendis sem og á heimasvæði nýlenduþjóðanna sem nú ætla sér að blóðmjólka, nýju nýlenduna sína, Ísland.

Nei, ábyrgðin liggur svo sannarlega ekki hjá íslensku þjóðinni.

Hvað gengur þeim íslensku ráðamönnum þá til sem nú ætla að ábyrgast bankarán sem í raun kemur íslenskri lögsögu ekkert við?

Sennilega liggur svarið í einfaldleika og grunnhyggni þeirra sömu ráðamanna. Þeir sjá ekki eða þora ekki að sjá það sem liggur fyrir framan þau.

Kjarni málsins liggur í hvort íslenskur almenningur beri lagalega ábyrgð á gjörðum örfárra óreiðumanna.

Lagaleg óvissa af stærðargráðu sem í flestum ríkjum yrði annað hvort leyst í dómstólum eða í stríði því engin ríkisstjórn setur erlendar þjóðir í forgang og dæmir sína eigin þjóð fátækt sem engan endi sér á.

Ísland er með öðrum orðum, nú þegar, komið í það sem kalla mætti vopnlaust stríð.

Vopnlaust stríð sem mun enda með langvinnri blóðmjólkun á íslenskum auðlindum og íslenskum almenningi.

Hvað halda annars íslenskir ráðamenn að Bretar og Hollendingar geri þegar IceSave skuldin, og öll þessi lántaka, er búin að vaxa á okurvöxtunum? Þessar vinaþjóðir sem eru nú þegar að kúga okkur?

Þær gera það sem nýlenduþjóðir gera best. Þær kúga þegna annarra þjóða í eiginhagsmunaskyni.

 

Reykjavík 29. júlí 2009
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 7. ágúst 2009 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband