Styrkur krónunnar

Á síðastliðnum misserum hefur þeim farið ört fjölgandi sem fara jákvæðum orðum um íslensku krónuna. Ekki aðeins að krónan hafi fengið jákvæða dóma frá nóbelsverðlaunahafanum í hagfræði, Jósef Stiglitz, heldur hefur hún sýnt sig vera bjargvættur þjóðarinnar á krepputímum. Hitt er svo annað mál að það virðist sem hluti íslenskra ráðamanna sé markvisst að vinna gegn krónunni, þá með óútskýrðum óhóflegum lántökum í erlendri mynt. Munu þessi óútskýrðu lántökur valda því að stór hluti, ef ekki mestur hluti, gjaldeyristekna landsins fer í árlegar vaxtagreiðslur, sem auðveldlega eiga eftir að vinda upp á sig, og valda enn frekari veikingu íslensku krónunnar.

   Í lengri tíma hafa óvildarmenn krónunnar, sem að mestu koma úr röðum fyrrum bankamanna eða talsmanna þeirra, talað fyrir upptöku Evru, Dollars eða annars gjaldmiðils. Sé litið til baka var talsmáti þeirra oftast dylgjukenndur og með mikilli rökleysu en þó í krafti einokunar á fjölmiðlamarkaði tókst þessum bankamönnum, sem sannarlega blóðmjólkuðu samfélagið, og talsmönnum þeirra að kasta tálsýn á bæði greinda og vel hugsandi menn.

   Þeir tímar eru þó vonandi liðnir að fyrrum bankamenn, fjárglæframenn, og talsmenn þeirra geti í krafti einokunar á fjölmiðlamarkaði kastað fram draumkenndri rökleysu og sagt hana sannindi.

   Atvinnuleysi, minnkandi verðmætasköpun, fjöldagjaldþrot fyrirtækja, lífskjaraskerðing og aðrar hremmingar einkenna nú Evrulönd á borð við Spán og ekki síst Írland. Í raun er staðan á Írlandi svo grafalvarleg að virtustu hagfræðingar þarlendis telja að þjóðin hafi í raun aðeins tvo valkosti, taka upp sjálfstæða mynt aftur eða horfa upp á þjóðargjaldþrot, langvinna kreppu og atvinnuleysi sem engan enda mun sjá á. Á Spáni er atvinnuleysi er almennt atvinnuleysi tæplega tuttugu prósent og atvinnuleysi ungmenna að nálgast fjörtíu prósent.

   Sennilega ef óvildarmenn krónunnar fengið sínu framgengt væri hér atvinnuleysi svipað og á Spáni og jafnvel verra.

   Vegna krónunnar hafa Íslendingar, í tugi ára, ferðast ódýrt út um allan heim. Vegna krónunnar hafa Íslendingar, einnig í tugi ára, búið við eitt minnsta atvinnuleysi sem um getur í Evrópu. Vegna krónunnar hafa framleiðslufyrirtæki landsins blómstrað. Vegna krónunnar mun kreppan vera styttri á Íslandi en í þeim Evrópulöndum sem hafa ekki sjálfstæða mynt svo lengi sem ráðamenn þjóðarinnar hætta að vinna gegn henni.

   Með krónuna sem gjaldmiðil geta Íslendingar skapað, frjálsara, jafnara og betra þjóðfélag.

 

Reykjavík 21. október 2009
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 12. desember 2009 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband