Pétur Guðjohnsen - Minningargrein

Pétur Guðjohnsen eða afi Pétur eins og ég þekkti hann var mér afar kær. Á ég margar og góðar minningar af honum frá barnæsku minni, þá einna sérstaklega þeim fjölmörgu veiðiferðum sem við bræðurnir fórum í með honum. Það var þó ekki fyrr en ég hóf nám við Háskóla Íslands, og þurfti að finna mér hljóðlátt umhverfi til að læra í, sem við afi urðum nánir og hann fór að hafa mikil áhrif á lífsskoðanir mínar.

Fyrst um sinn, eftir að ég hóf reglulegar heimsóknir til afa og ömmu, deildum við hart og áttum mikil skoðanaskipti um samfélagið. Urðu oft heimsóknir, sem í grunnin voru ætlaðar skólabókalestri, að nær óstöðvandi samræðum um stjórnmál og kom það oftar en ekki fyrir að námið var sett á bið til að hlusta á þá miklu speki sem bjó í honum afa gamla.

Ég minnist þess að oftar en ekki sat í mér tilhlökkun að komast úr skólanum til þeirra ömmu og afa til að sitja í stofunni með honum afa og hlusta á bæði sögur frá hans yngri árum sem og ádeilur hans á ýmist samfélagslegt óréttlæti.  

Sannarlega á ég eftir að sakna þeirra tíma þegar við afi sátum saman í stofunni, horfðum á ýmist þingfundi, norsku fréttirnar, dýralífsþætti eða annað, spjölluðum um samfélagið og biðum eftir góðum mat frá henni ömmu. Sárt þykir mér að hugsa til þess að þeir tímar eru liðnir en það er mér huggun að vita til þess að minning hans og orðstír mun lifa áfram um ókomna tíð því eins og segir í gamalli speki:

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Þegar ég lít til baka og horfi yfir þau ár sem ég hef farið nokkuð reglulega í heimsóknir til hans afa, og hennar ömmu, get ég sagt það með vissu að hann afi er með þeim stærri áhrifavöldum á lífsskoðanir mínar og kveð ég hann með miklum söknuði.

 

Reykjavík 24. nóvember 2009
Viðar H. Guðjohnsen


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband