Færsluflokkur: Bloggar

Fordómar og skoðanafasismi

Í lýðræðisríkjum er grundvallaratriði að skoðanafrelsið sé virt.

Kolbrún Bergþórsdóttir, pistlahöfundur hjá Morgunblaðinu, hefur gert sig seka um fordóma og skoðanafasisma. Í krafti þess að geta skrifað í Morgunblaðið þegar henni hentar reynir Kolbrún að rangtúlka málflutning Frjálslynda flokksins í málefnum innflytjenda. Kolbrún fer með rangt mál og dylgjar um að stefna Frjálslynda flokksins sé byggð á mannfyrirlitningu, kynþáttahyggju eða einhverju þaðan af verra. Hér ætti Kolbrún að skammast sín því að ef hún hefur kynnt sér málflutning Frjálslynda flokksins þá veit hún betur. Mér hefur alltaf líkað við Kolbrúnu en nú hef ég grun um að einhver sé að skrifa í gegnum hana.

Stundum þegar sjálfskipaðir menningarpostular koma saman getur myndast verulega grunnhygginn já-kór sem er í engu samhengi við raunveruleikann.

Frjálslyndi flokkurinn hefur talað gegn frjálsu flæði innflytjenda og benti meðal annars á ýmsa vankanta sem nú hafa komið á daginn, má þar nefna ófyrirséð álag á heilbrigðiskerfið, skólakerfið og félagslegakerfið í heild sinni. Frjálslyndi flokkur benti á að erlend glæpagengi gætu hugsanlega skotið rótum hérlendis og nú samkvæmt nýrri greiningu lögreglunnar eru erlend glæpagengi orðin staðbundin vandamál í íslensku samfélagi. Við sjáum líka að mannréttindi erlendra verkamanna hafa ekki verið tryggð hér á landi og við horfum upp á ítrekuð brot sem jaðra við þrældóm.

Að vera með ljót orð gagnvart vönduðum vinnubrögðum og fyrirhyggju Magnúsar Þórs lýsir engu öðru en eigin fordómum og skoðanafasisma Kolbrúnar.

Umburðarlyndisfasismi getur líka verið hættulegur, þar að segja að við eigum að sætta okkur við allt hversu órökrétt sem það er.

Skoðanafrelsið ber að virða og ekki rangtúlka eða breyta.

 

Reykjavík 5. júní 2008
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 6. júní 2008 


Var Jón Sigurðsson frjálslyndur þjóðernissinni ?

Á því eina ári sem ég hef sent inn greinar til morgunblaðsins um málefni íslensku þjóðarinnar hefur oftar en ekki komið upp ein og ein athugasemd þar sem skoðunum mínum hefur verið líkt við rómantíska þjóðernisstefnu.

Fyrir mér var þjóðernisstefnan hulin ráðgáta þar sem hún hafði oft verið sett í samhengi við eitthvað illt en á sama tíma vissi ég líka að Skoski þjóðernisflokkurinn ,sem nú er orðinn stærsti stjórnmálaflokkur Skotlands með um 37% fylgi, er ekki flokkur sem byggir á einhverju illu, mannvonsku eða hatri.

Þess vegna núna rúmu ári eftir að ég skrifaði greinina ,,Ísland fyrir Íslendinga - um hvað snýst málið" ákvað ég að leggjast í smá rannsóknarvinnu og lesa mér til um þessa svokölluðu þjóðernisstefnu sem hefur hér á Íslandi verið blásin upp sem ill og ætti helst að úthýsa hvort sem almenningi þóknast eða ekki.

Það sem kom mér hvað mest á óvart í þeirri rannsóknarvinnu var að það er ekki til einhver ein ákveðin þjóðernisstefna heldur eru til nokkrar þjóðernisstefnur sem eru mjög mismunandi þótt allar hafi þær það sameiginlegt að horfa á heiminn sem samansafn af mismunandi þjóðum með mismunandi tungumál og lífsskoðanir.

Andrew Heywood stjórnmálafræðingur tekur fyrir í bók sinni Political ideologies fjórar helstu þjóðernisstefnurnar en þær eru: Frjálslynd þjóðernisstefna (Liberal nationalism) sem ég mun fara í nánar, Íhaldssöm þjóðernisstefna (Conservative nationalism), Útþenslu þjóðernisstefna (Expansionist nationalism) og Eftirnýlendu þjóðernisstefna (Anticolonial and postcolonial nationalism).

Frjálslynd þjóðernisstefna er elsta form þjóðernisstefnu og á rætur sínar að rekja til frönsku byltingarinnar og fyrir marga byltingarsinna í Evrópu á þeim tíma voru engin skýr skil á milli frjálslyndisstefnu annars vegar og svo þjóðernisstefnu hins vegar.

Frjálslyndisstefnan byggðist á frelsi einstaklingsins og frjálslynda þjóðernisstefnan byggði á frelsi þjóðarinnar til sjálfsákvörðunarréttar sem og einstaklingsfrelsi þjóðfélagsþegnanna.

Frjálslynd þjóðernisstefna er frjálslynd í tvennum skilningi: Í fyrsta lagi þá er frjálslynd þjóðernisstefna mótfallin öllum erlendum yfirráðum eða kúgunum hvort sem þau yfirráð eru fjölþjóðleg sambandsríki eða nýlenduþjóðir. Í öðru lagi þá stendur frjálslynd þjóðernisstefna fyrir þá hugsjón um sjálfsstjórn þjóðarinnar, þar að segja að það séu borgararnir sem ráði yfir þjóðstjórninni en ekki þjóðstjórnin yfir borgurunum.

Þá trúa frjálslyndir þjóðernissinnar að þjóðir séu jafnar í þeim skilningi að engin þjóð sé annarri betri.

Fyrir frjálslyndan einstakling þá er þjóðernisstefnan ekki í til í þeim skilningi að hún kljúfi þjóðir frá hvor annarri, ýti undir vantraust, hvetji til vopnakapphlaups og hugsanlegan stríðsrekstur. Þvert á móti skapar þjóðernisstefnan sameiningu innan þjóðarinnar og hvetur til bræðralags meðal nærliggjandi þjóða með virðingu fyrir þjóðlegum réttindum að sjónarmiði.

Í titlinum á þessari grein varpaði ég fram þeirri spurningu hvort Jón Sigurðsson, þjóðarhetja Íslendinga, hefði verið frjálslyndur þjóðernissinni og er ég sjálfur þess fullviss um að það hafi hann svo sannarlega verið.

 

Reykjavík 19. mars 2008
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 19. apríl 2008 

 

 


Gleymum ekki Hitaveitu Suðurnesja

Síðastliðin misseri hef ég orðið mikið var við mikla spillingarlykt hvað varðar einkavæðingarferli hinna ýmsa almenningseigna og þá einna helst einkavæðingarferli orkuauðlindarinnar.

Fyrr á árinu [2007] var það ákveðið að hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja yrði seldur, sú ákvörðun var gerð með slíkum feluleik að það var ekki fyrr en þegar kom að sölunni sjálfri að umfjöllun hófst um málið. Strax þá fóru ýmsar spurningar að líta dagsins ljós.

Af hverju var tekin ákvörðun um slíka umbreytingu í skjóli kosninganna?

Af hverju var ekkert rætt um þetta í fjölmiðlum?

Af hverju þvertók Geir H. Haarde fyrir það í kastljósi að það stæði til þess að einkavæða orkugeiranum?

Hvernig var verðmatið gert á Hitaveitu Suðurnesja?

Af hverju var sölunni háttað þannig að þeim ríku og fátækum sveitafélögum var stillt upp svipað og þegar auðlindir Rússlands fóru á uppboð og auðmönnum tókst að krækja í milljarða auðlindir fyrir fimmeyringa?

Af hverju var Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra að beita sér fyrir því að hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja yrði seldur?

Hverjir fleiri voru það sem þrýstu á þessa sölu?

Stuttu seinna var hlutur ríkisins í Hitaveitu suðurnesja seldur með rússnesku yfirbragði í skjóli sumars og stjórnmálaþreytu eftir kosningar en það var ekki það eina heldur ákváðu fjölmörg sveitafélög að fylgja fordæmi ríkisins og selja sinn hlut í Hitaveitunni.
Á örskotsstundu var gullegg þjóðarinnar komið að miklu leiti (32%) í eigu örfárra stórfyrirtækja undir nafninu Geysir Green Energy.

Gagnrýnisraddir voru því miður ekki háværar enda var þessi sala eins og segir að ofanverðu gerð í skjóli sumars og stjórnmálaþreytu kosningarinnar. Tímasetningin gat ekki verið betri fyrir auðlindaþjófnað af stórri stærðargráðu.

Enn fleiri spurningar vöknuðu. 

Hverjir þrýstu á litlu sveitafélögin í að selja sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja?

Hvernig var sölunni hjá litlu sveitafélögunum háttað?

Hvernig var komið að verðmatinu á Hitaveitu Suðurnesja hvað varðar hluti sveitafélaganna?
Af hverju var enn verið að standa í rússneskri brunaútsölu?
Hvert er hlutverk Árna M. Mathiesen, Geir Haarde og Árna Sigfússonar í því sem margir telja arðráni aldarinnar?

Eru varðmenn þjóðarinnar viljandi að vinna gegn hagsmunum almennings?

Eru háttsettir stjórnmálamenn að stunda leynifundi með auðmönnum þjóðarinnar?
Mánuðirnir liðu, sumardagarnir fóru að syngja sitt síðasta, fólk fór að koma úr sumarfríum og fylgjast með stjórnmálum aftur eftir hvíld sumarsins.

Upp úr þurru fer fyrirtækið REI sem var þá að fullu í eigu Orkuveitu Reykjavíkur á lokaðan markað og örfáir útvaldir fá að kaupa í því hlut.

Eftir heitar umræður í fjölmiðlum kom allt í einu í ljós að REI var aldeilis ekki bara útrásarhluti Orkuveitu Reykjavíkur og inni í REI var 16% hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja, með öðrum orðum þá var þarna stórtækur blekkingarleikur í gangi.

Enn vöknuðu upp fleiri spurningar og eru þær orðnar margar.

Hvað er hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja að gera í fyrirtækinu REI sem á að vera útrásarhluti Orkuveitu Reykjavíkur?

Af hverju er Árni Sigfússon að þrýsta á uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja ?

Hvert er hlutverk Vilhjálms Vilhjálmssonar í þessum vef og af hverju voru afdrifamiklir næturfundir haldnir á heimili hans?

Tíminn leið og einkavæðing REI var dregin til baka. Enn er þó óljóst hvað verður um 16% hlut

Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja. Orkumálin róuðust niður en þá eins og skrattinn úr sauðarleggnum kom upp nýtt hitamál og enn kemur nafn núverandi fjármálaráðherra upp í fjölmiðlum í tengslum við mál sem svo sannarlega hefur sterka spillingarlykt. Íbúðir varnarliðsins voru seldar í skjóli nætur á slíku undirverði að í samanburði við fasteignaverð eyðibyggða og draugabæi virðast eyðibyggðir og draugabæir vera með himinhátt fasteignaverð.

Vöknuðu enn og aftur upp spurningar.

Af hverju fengu útvaldir auðmenn undir nafninu Háskólavellir að kaupa upp flest allar íbúðir varnarliðssvæðisins?

Af hverju voru 150 fermetra íbúðir seldar á um 8,6 milljónir króna þegar raunvirði þeirra er um 20 milljónir.

Hvað með landið undir íbúðunum? Er það eignarland? Verður það hugsanlega selt til Reykjanesbæjar?

Af hverju fékk almenningur ekki að kaupa á sömu kjörum og af hverju fékk almenningur yfir höfuð ekki að kaupa?

Hver eru tengsl fjármálaráðherra við söluna?

Er það talið siðferðislega rétt að bróðir núverandi fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen sé einn af eigendum í fyrirtæki sem á hlut í Háskólavöllum?

Er það talið siðferðislega rétt að bræður háttvirtra stjórnmálamanna séu óbeinir kaupendur að ríkiseignum?

Hvert er hlutverk Árna Sigfússonar bæjarstjóra Reykjanesbæjar í söluferlinu og af hverju finnst honum ekkert óeðlilegt við það að ríkiseignir voru þarna seldar á algeru gjafaverði?

Ofangreindum spurningum verður sennilega aldrei svarað, þó þætti mér gaman að sjá einhvern þingmann veita þessu máli athygli og þá sérstaklega málefni Hitaveitu Suðurnesja sem margir telja að geti hundraðfaldast í virði.

 

Reykjavík 21. janúar 2008
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 10. febrúar 2008 


Hagræðing á kostnað réttlætis

Á hverjum degi birtast fregnir af þeirri velmegun og þeirri hagvaxtaraukningu sem nú á sér stað hér á Íslandi.

Ef skoðaðar eru þær hagvaxtarlýsingar sem birtast daglega í fjölmiðlum mætti halda að hér sé að skapast fyrirmyndarþjóðfélag sem umheimurinn mætti draga dám af.

Raunin er því miður önnur, það fyrirmyndarþjóðfélag sem Ísland hefur verið er að líða undir lok. Á meðan þjóðin sefur fer siðferðisvitund atvinnurekenda hnignandi og er nú komin á hraða niðurleið í forarpitt græðginnar.

Græðgi íslenskra atvinnurekenda er orðin slík, að í öllum þeim hagvexti og allri þeirri velmegun sem nú ríkir í okkar samfélagi, er launum umönnunarstarfsmanna, verkamanna og allra þeirra sem vinna með höndunum haldið niðri með innflutningi á ódýrum útlendingum. Ekki er hægt að sjá að þar sé hagvöxturinn að skila sér.

Enn erfiðara er það orðið fyrir hinn almenna borgara að verða sjálfs síns herra og auðæfin færast á sífellt færri hendur. Hagræðingin er öllu fremri, jafnvel framar sjálfu réttlætinu.

Í nafni hagræðingar fá auðhringir einkaaðgang að auðlindum Íslands.

Í nafni hagræðingar fá aðeins þeir ríku aðgang að þeim milljörðum sem sjávarútvegurinn skapar árlega.

Í nafni hagræðingar er íslenski bóndinn gerður að leiguliða.

Í nafni hagræðingar á nú með vatnalögum, að afnema þá hefð, að vatnið sé í eigu almennings, nú á að koma vatninu í hendur auðhringa með öllu því óréttlæti sem sú hagræðing felur í sér.

En hvað viljum við Íslendingar í þessum málum?

Viljum við Íslendingar að vatns- og orkuauðlindir okkar fari í sama farveg og sjávarauðlindirnar?
Viljum við Íslendingar að auðhringir klófesti orku-, vatns- og sjávarauðlindir þjóðarinnar í nafni hagræðingar?

Þann 12. maí næstkomandi höfum við Íslendingar valið. Sá farvegur í átt að óréttlæti, sem við Íslendingar erum komnir í, er ekki orðin að einstefnu. Við getum enn lagað áttavitann áður en skipið siglir í strand og engu verður breytt.

Látum réttlætið ekki bíða lægri hlut í nafni hagræðingar.

 

Reykjavík 9. mars 2007
Viðar H. Guðjohnsen


Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 5. apríl 2007


Endurskipulagning bloggsíðu

Eins og glöggir menn hafa tekið eftir hefur bloggsíðan mín legið niðri og færslur fyrri missera horfnar. 

Eftir að ljóst var um ráðningu nýrra ritstjóra hjá Morgunblaðinu varð mér ljóst að Morgunblaðið verður bæði vandaðra og skemmtilegra í lestri.

Sú staðreynd ásamt þeirri að ég var farinn að þreytast á þessum svokölluðu bloggskrifum, sem sum hver voru misvönduð, var orsök þeirrar endurskipulagningar sem undirritaður hefur nú hrint í framkvæmd.

Mun ég hér eftir einbeita mér að vönduðum greinaskrifum sem ég hyggst senda til birtingar í Morgunblaðinu.

Verður bloggsíða þess framvegis vettfangur þeirra skrifa minna sem birtast í Morgunblaðinu.

 

Reykjavík, 9. október 2009
Viðar H. Guðjohnsen


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband