Þjóðin skal fá valdið

Nú sitja þeir og skjálfa, þeir sem öllu vilja ráða, þeir sem öllu ráða og illa hafa farið með vald sitt. Óttinn við að missa völdin ber þá yfirliði og gera þeir nú lítið annað en að tala niður allar hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur svona rétt á milli þess sem þeir ákveða hvaða auðlind skal næst fara í hendur örfárra og hvort framselja eigi fullveldi þjóðarinnar til embættismanna staðsettra á meginlandi Evrópu.

   Í lengri tíma hafa ákveðnir stjórnmálamenn á Íslandi svívirt núgildandi stjórnarskrá og með klækjum haft af þjóðinni þann arf sem forfeðurnir gáfu til okkar Íslendinga. Svo reyna þessir sömu menn, sem á sínum tíma gáfu bankamönnum lausan tauminn til að stýra landinu, að segja þjóðinni að henni sé ekki treyst fyrir því að ákveða sín eigin örlög.

   Nú þegar kosið verður til stjórnlagaþings þarf þjóðin að standa saman og hún þarf að kjósa á þingið einstaklinga sem vilja aukna aðkomu þjóðarinnar að löggjöfinni, einstaklinga sem vilja verja sjálfstæðið og einstaklinga sem sveiflast ekki eftir því hvernig vindar blása. Það þarf að koma á lýðræðisumbótum.

   Þjóðin þarf að fá vald til að kjósa um stór ágreiningsmál. Það gengur ekki miklu lengur að örfáir geti arðrænt þjóðina. Þjóðin þarf að standa saman og kjósa til stjórnlagaþings. Það er okkar leið og jafnvel þótt sú leið verði að lokum tekin frá okkur eða stjórnlagaþingið mistakist á einhvern hátt þá finnum við nýja leið og nýja von.

   Við megum aldrei missa vonina, aldrei láta landráð afskiptalaus og aldrei gefast upp. Það var íslenska þjóðin sem stoppaði Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu og þeirri þjóð er treystandi. Gleymum því aldrei.

 

Góðbær 23. nóvember 2010
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 26. nóvember 2010 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband