Skilvirkari samgöngur

        Ekki þarf að skoða meira en eins dags mælingu á umferðaþunga í Reykjavík til þess að sannfærast um að skipulag samgangna í borginni sé ekki skilvirkt. Í upphafi vinnudags streymir umferðaþunginn inn í atvinnumiðju borgarinnar, miðbæinn, og aftur þaðan út þegar líða tekur á síðdegið.

   Að borgarbúar þurfi að sitja í umferðarteppu dag eftir dag er ekki bara tímaþjófnaður, sem hefur verulegan kostnað í för með sér, heldur valda umferðartafir aukinni mengun vegna þess að bíll sem fer bara fetið í umferðateppu eyðir meira eldsneyti en ef um hefðbundinn akstur væri að ræða. Slík sóun á eldsneyti er engum til góðs.

   Mikilvægustu framkvæmdirnar sem hægt er að fara út í til þess að auka skilvirkni umferðar í Reykjavík er Sundabrautin og fjölgun mislægra gatnamóta, koma þá gatnamót Kringlumýrabrautar og Miklubrautar fyrst upp í hugann. Til þess að flýta fyrir Sundabrautinni mætti vel skoða hvort einhverjar útfærslur af einkaframkvæmd væri hentugt fyrirkomulag.

   Skiljanlega súpa menn hveljur þegar þeir lesa um það fjármagn sem þarf til að reisa Sundabrautina og fjölga mislægum gatnamótum. Þó ber að því halda til haga að í öllum þeim ríkjum sem byggja á skilvirkum samgöngum hafa menn séð aukna hagkvæmni í slíkum fjárfestingum ekki bara í aukinni hagræðingu heldur einnig í sparnaði óbeins kostnaðar, s.s. vegna tjóns á einstaklingum og eignum enda munu skilvirkar samgöngur fækka óþarfa umferðarslysum eins og rannsóknir hafa sýnt fram á. Ofangreind atriði eru mikilvæg, bæði vegna öryggis borgaranna sem og efnahagslega.

   Samhliða þessum atriðum þá þarf að leggja aukna áherslu á atvinnuuppbyggingu í austurhluta borgarinnar. Með því má minnka þá umferð sem streymir í átt að miðbænum og stuðlar að fjölbreyttu lífi borgarbúa. Vel væri hægt að sjá fyrir sér blómlegt líf í austurhlutanum með aukinni verslun og fleiri kaffihúsum með breyttum áherslum í byggingarstíl öllum til hagsbóta.

   Þá mætti skoða þá hugmynd að hvetja til aukinnar verslunar og þjónustu á ákveðnum svæðum með markvissum aðgerðum, t.d. með svæðisbundinni lækkun á fasteignagjöldum og öðrum opinberum gjöldum á þá sem taka slaginn. 

 

Reykjavík 15. október 2013
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 17. október 2013   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband