Misbeiting valds

Það er sagt að stundum sé best að láta dylgjum og sleggjudómum ósvarað en stundum, stundum verður að leiðrétta rangan málflutning því að ef lygin er nógu oft sögð verður hún að sannleika.

Mikið hefur verið rætt um ábyrgð fjölmiðla og skal það skoðað sérstaklega í ljósi þess sem á eftir fylgir.

Þann 5. október síðastliðinn birtist frétt á fréttavef DV þess efnis að undirritaður, sem er prófkjörsframbjóðandi í komandi borgarstjórnarprófkjöri Sjálfstæðisflokksins, vildi láta reisa styttu af Jóni Páli Sigmarssyni við tjörnina í Reykjavík. Sannarlega er það rétt og ekkert út á þann hluta fréttarinnar að setja. Stytta af Jóni Páli er löngu orðin tímabær og sannarlega ekki í fyrsta skiptið sem slík hugmynd hefur verið viðruð.

Hins vegar ákvað viðkomandi fréttahöfundur, sem í þessu tilfelli skrifar nafnlaust undir merkjum ritstjórnar DV, að ljúka fréttinni með skírskotun í að undirritaður hefði fyrir fimm árum síðan verið ásakaður um andúð á innflytjendum fyrir það að benda á meinbugi opinna landamæra og ástand hinnar svokölluðu fjölmenningar í ríkjum á meginlandi Evrópu.

Fyrir utan það að fimm ár eru liðin frá því að undirritaður lýsti áhyggjum sínum, sem sannarlega áttu rétt á sér, er það nú einu sinni svo að undirritaður hefur sjálfur verið innflytjandi í ókunnu landi, starfað sem lyfjafræðingur í Þýskalandi og hefur séð mörg þau vandamál sem fylgja opnum landamærum.

Hápunktur fréttarinnar var þó ekki þessi fyrrgreinda skírskotun heldur upprifjun fréttamannsins á félagsskap sem á einhverjum tímapunkti ákvað að fara til lögreglunnar og leggja fram undarlega kæru. Þessi ónefndi fréttahöfundur, sem þarna skrifar í nafni ritstjórnar DV, gat þess ekki að þessi umrædda ákæra var svo fráleit að lögreglan sendi hana þar sem hún átti heima; beint í ruslatunnuna.

Niðurlag fréttarinnar dæmdi sig sjálft og hefði ekki komið til umfjöllunar ef tilgangurinn hefði ekki verið eins alvarlegur og raun bar vitni en var niðurlagið aðeins gert til að vekja upp athugasemdahjörðina sem, upp á síðkastið, hefur misboðið fólki með ummælum sem enginn lætur út úr sér nema kannski á bak við lyklaborð í múgæsing. Það tókst ekki. Hjörðin tók ekki við sér.

Stuttu seinna birtist önnur frétt undir merkjum ritstjórnar DV og virtist sú handahófskennda frétt aðeins hafa einn tilgang enda fólst engin frétt í fréttinni heldur eingöngu skrumskæling á liðnum atburð og einhver upprifjunarstund. Reynt var enn og aftur að vekja upp hjörðina sem skrifar athugasemdir við fréttir á vefnum og í þetta skiptið tókst það. Riddarar velsæmis og almannahagsmuna sem hafast við á athugasemdakerfi DV ákváðu að ausa úr skálum reiðinnar á ungan lyfjafræðing sem fyrir fimm árum skrifaði um þá galla sem fylgja galopnum landamærum og vogaði sér að segjast kristinnar trúar í útvarpsviðtali.

Það að ásaka einhvern um andúð á innflytjendum eða að dylgja um að menn séu kynþáttahatarar er alvarlegt. Það að æsa upp múginn er þó alvarlegra.

Undirritaður hefur aldrei talað fyrir andúð á innflytjendum enda sjálfur staðið í sömu sporum á meðan hann starfaði erlendis og á í þokkabótina norska ömmu sem honum þykir afar vænt um.

Undirritaður hefur sannarlega látið hin ýmsu málefni sig varða enda er það svo að honum þykir afar vænt um samfélagið sitt og þá sérstaklega borgina sína og hefur eins og fleiri lýst áhyggjum sínum yfir uppgangi erlendra glæpagengja, auknum menningarlegum óstöðugleika og ástandinu á meginlandi Evrópu.

Jafnvel í löndunum í kringum okkur er verið að fjalla um slík vandamál. Í því samhengi má benda á að frú Merkel, kanslari Þýskalands, sagði ekki alls fyrir löngu í frægri ræðu að fjölmenningarstefnan væri ónýt og orsakir vandamálanna lægju í því að sumir menningarhópar væru ekki að aðlagast hinu vestræna þjóðfélagi. Þetta er rétt og það er varla hægt að saka frú Merkel um andúð á innflytjendum fyrir það að benda á staðreyndir enda datt engum manni það í hug.

Alvarlegast í fréttaflutningi DV er þó tilgangurinn, tilgangurinn að vekja upp athugasemdahjörðina í allri sinni dýrð með það að leiðarljósi að fá hóp manna upp á móti skoðun og málefni sem ekki var verið að ræða. Það er alþekkt aðferð að ráðast á manninn en ekki boltann. Eðlilegast er að fólk með ólíkar skoðanir og ólíkar áherslur í pólitík geti rætt saman og rökrætt. Það styrkir báða aðila með því að skoðunin fær þá umræðu og nýir vinklar fást á mál. Það að reyna mála skrattann á vegginn þegar menn eru ósammála og ráðast á mann með dylgjum veikir málstað þeirra sem það gera.

Í Bretlandi á árum áður voru það fótboltabullurnar sem fóru á fótboltaleiki aðeins til þess að æsa upp múginn, sitja svo hjá og horfa á múginn berja hvorn annan. Á Íslandi, árið 2013, er það ritstjórn DV sem æsir upp múginn og vonast til að valda sem mestu tjóni.

Við hinir, við sem lendum í múgæsingnum, bíðum spakir, horfum fram á veginn, höldum áfram, stefnufastir og án uppgjafar. 

 

 

Reykjavík 9. október 2013
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 10. október 2013   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband