9.10.2009 | 14:29
Frjálst Ísland
Allt frá því sjálfstæðisbaráttu Íslendinga lauk með sjálfstæðisyfirlýsingu og fullu valdi yfir löggjöf sinni 17. júní árið 1944, hundrað árum eftir endurreisn Alþingis Íslendinga árið 1844, hefur mikil góðærissveifla og þjóðarsameining einkennt hið íslenska samfélag.
Góðæri sem má að miklu leiti rekja til nokkurra þátta en þó einna helst þriggja grundvallarþátta velmegunar og þjóðarstyrks.
Fyrir það fyrsta hefur íslenska þjóðin, í krafti þess að hún fékk algert frelsi til sjálfsákvarðana með sjálfstæðisyfirlýsingu sinni, bæði getað sett verndartolla á þjóðarframleiðslu sína sem og styrkt alla innanlandsframleiðslu.
Sú verndarstefna skapað grundvöll fyrir bæði sterkri innanlandsframleiðslu og sjálfbæri þjóðarinnar í matvælaframleiðslu.
Í öðru lagi má rekja betri lífskjör íslensku þjóðarinnar til þeirra nær ótakmörkuðu náttúruauðlinda sem landið og landhelgin hefur upp á að bjóða.
Nær ótæmandi orkubirgðir sem nýta má til kyndingar eða raforkuframleiðslu, hreint vatn og sennilega ein bestu fiskimið heimsins.
Þar sem órjúfanleg tengsl eru á milli eignarhalds íslensku þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum sínum og lífsbjörg þjóðarinnar er það algerlega nauðsynlegt að eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindum sínum sé tryggt á meðan land er byggt.
Í þriðja lagi má rekja góðæristímabil þjóðarinnar til fullveldisins þ.e. að löggjafarvaldið er að öllu leiti í höndum þjóðkjörinnar stjórnar hennar. Vald sem gerir okkur kleift að viðhalda og stefna að sjálfbæru þjóðfélagi, vald sem gerir okkur kleift að halda náttúruauðlindum þjóðarinnar í eigu þjóðarinnar, vald sem má aldrei afnema.
Eins mesta hætta sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir er að þetta vald sem við í hundrað ár börðumst fyrir hverfi frá okkur, að auðlindir Íslands sem í þúsund ár hafa verið eign Íslendinga fari í hendur erlendra auðhringa og að íslensku matvælaframleiðslunni, fæðuöryggi landsmanna, verði bolað úr landi.
Barátta Íslendinga gegn erlendum yfirráðum er hafin. Þjóðarsamstaða hefur ekki verið íslensku þjóðinni jafn mikilvæg frá því Íslendingar börðust fyrir sjálfstæði sínu. Í raun er staðan svo alvarleg að hver einn og einasti Íslendingur þarf að gera sitt til þess að sporna gegn þeim voðaverkum sem kunna að vera unnin á velmegun, sjálfstæði og framtíð íslensku þjóðarinnar.
Undir venjulegum kringumstæðum gæti almenningur treyst á kjörna fulltrúa sína en því miður virðist sem fulltrúarnir fyrrnefndu séu farnir að vinna fyrir annaðhvort sérhagsmuni auðhringa eða erlendra ríkja. Íslenska þjóðin hefur verið sett aftast í röðina. Á meðan fjárhagur þjóðarinnar brennur eru fulltrúar íslensku þjóðarinnar ýmist að varpa skuldum bankamanna á saklausan almenning, selja orkuauðlindir til erlendra stórfjárfesta eða undirbúa valdaframsal til stofnanna staðsetta á meginlandi Evrópu, valdaframsal sem verður án efa stórfeldasta spellvirki sem unnið hefur verið á íslensku þjóðinni frá landnámi fari það í gegn.
Íslendingar þurfa að stöðva þessa þróun, og þeir geta það. Þjóðin sem stóð ein gegn heimsveldi Breta í deilunni um fiskimiðin sín og bar að lokum sigur úr bítum lætur ekki stöðva sig svo auðveldlega. Gleymum ekki að á þeim tíma voru líka til einstaklingar og ráðamenn sem vildu ekki styggja Breta, þá voru líka til einstaklingar og ráðamenn sem vildu lúffa fyrir erlendu valdboði, en þjóðin reis upp og það var þjóðin sem sigraði deiluna. Þjóðin neitaði að taka til umfjöllunar málflutning þeirra sem vildu gefast upp án baráttu og þjóðin hefði barist eins lengi og nauðsyn hefði verið til þess að fá sínu framgengt. Þetta er þjóðin sem enn býr á Íslandi, þjóðin sem nú berst fyrir frelsi sínu og sjáfbærni og þótt kjörnir fulltrúar og örfáir einstaklingar í hirð þeirra vilji gefast upp mun íslenska þjóðin aldrei gefast upp.
Reykjavík 25. september 2009
Viðar H. Guðjohnsen
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 9. október 2009