9.10.2009 | 14:24
Óábyrgt kjánatal og blekkingar
Í Morgunblaðinu 7. Júlí birtist grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi fjármálaráðherra. Í grein sinni fer Jón mikinn og slær ekkert af dylgjum sínum um greind fróðustu og virtustu lögfræðinga Íslands.
Jafnframt reynir þessi fyrrum fjármálaráðherra, sem í ráðherratíð sinni var því sem næst hrakinn úr embætti vegna umdeildra áfengiskaupa, sitt besta að gera grein fyrir því af hverju saklaus íslenskur almenningur á að fórna öllu innra kerfi landsins, heilbrigðis- og menntakerfi til að borga skuldir fjárglæframanna. Þetta gerir Jón Baldvin með einstaklega listrænum útúrsnúning.
Jón Baldvin vitnar í alls kyns skýrslur frá hinum og þessum stofnunum eða jafnvel í skáldsagnarrit fyrirgreiðslufræðinga þótt hann sjálfur viti vel að kjarni málsins liggur í hvort íslenskur almenningur beri lagalega ábyrgð á gjörðum örfárra óreiðumanna.
Lagaleg óvissa af stærðargráðu sem í flestum ríkjum yrði annað hvort leyst í dómstólum eða í stríði því engin ríkisstjórn setur erlendar þjóðir í forgang og dæmir sína eigin þjóð fátækt sem engan endi sér á.
Þeir sem ganga svo harkalega að saklausum til að innheimta skuldir annarra eru með réttu lítið annað en níðingar og slíkt þekkist aðeins meðal harðsvíraðra handrukkara.
Íslenska þjóðin, þjóðin sem sigraði Breta í þorskastríðinu, þjóðin sem hefur blóð víkinga í æðum og barðist í hundrað ár fyrir sjálfstæði sínu, á betra skilið en kjarklausa ráðamenn sem í sífellu sýna bæði undirlægjuhátt og gunguskap.
Reykjavík 7. júlí 2009
Viðar H. Guðjohnsen
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 9. júlí 2009