7.5.2014 | 21:25
Að bjarga bönkum
Nú eru rúmlega fimm ár frá því að íslensku bankarnir hrundu, rúmlega fimm ár frá því ríkistjórn Íslands áréttaði í fréttatilkynningu að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu og rúmlega fimm ár frá því að þáverandi ríkisstjórn ákvað að bjarga bankakerfinu.
Nú fimm árum seinna skuldar ríkissjóður, sem stuttu fyrir hrun var því sem næst skuldlaus, svo mikið að hætta stafar af. Til að gera sér grein fyrir því hversu mikil byrði sú skuld er á landsmönnum greiðir ríkissjóður tugi milljarða árlega í vaxtagreiðslur en þær eru nú einn stærsti einstaki útgjaldaliður ríkissjóðs.
Það að bjarga bönkunum var sannarlega dýrkeypt og því er ekki furða að menn með einhvern vott af siðferðisvitund stígi fram og krefjist þess að í framtíðinni verði banka- og peningakerfinu breytt. Einn slíkur, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, steig fram í fjölmiðlum fyrir ekki svo löngu og talaði fyrir því að bönkum, öðrum en Seðlabanka Íslands, yrði bannað að búa til innstæður. Reyndar hefur nefndarformaðurinn, sem er rekstrarhagfræðingur að mennt, lengi vel staðið fyrir fræðslu á peningakerfinu í fjölmiðlum og talað fyrir umbótum sem myndu hugsanlega rétta af skuldastöðu ríkissjóðs og minnka verðbólgu. Kom nefndarformaðurinn í fyrrgreindu viðtali inn á mikilvægan orsakaþátt í hruni íslenska bankakerfisins, það er að segja leyfi banka til að búa til innstæður.
Til þess að fara stuttlega yfir okkar peningakerfi stýrir Seðlabanki Íslands því seðla- og myntmagni sem er í umferð á hverjum tíma. Það er að segja að til þess að koma í veg fyrir óhóflega peningaprentun er engum öðrum en Seðlabanka Íslands heimilt að prenta eða slá okkar gjaldmiðil. Seðla- og myntmagn er þó aðeins lítill hluti þess heildarpeningamagns sem er í umferð á hverjum tíma þar sem bankar hafa það vald að geta búið til innstæður. Eru innstæður í raun ígildi peninga þar sem fyrir utan að að þær eru gjaldgengar í viðskiptum má greiða skatta með þeim. Þessi framleiðsla á innstæðum er hluti þess ferlis sem fer af stað við það að einstaklingur tekur lán hjá banka.
Þetta leyfi til að búa til innstæður var misnotað með svo miklum ofsa á góðærisárunum að sjálfur þjóðargjaldmiðillinn, eftir hávaxtastefnu sem orsakaði mikið innstreymi gjaldeyris sem sópaði verðbólgunni tímabundið undir teppið, lenti í miklum háskadansi með áhrifum sem sendu þjóðina í einkar óvelkomna spennitreyju gjaldeyrishafta.
Þetta vald banka til að búa til innstæður er stór galli í núverandi banka- og peningakerfi, galli sem lýsir sér í því að bankar á góðæristímum þenja út peningakerfið eins mikið og þeir geta allt þar til þeir standa á brauðfótunum einum. Svo þegar allt hrynur er skattgreiðandinn látinn borga brúsann.
Í okkar samfélagi eru peningaseðlar ekki notaðir í viðskiptum nema að litlu leyti. Flest öll viðskipti fara fram rafrænt í formi kortaviðskipta eða millifærslu á rafrænum innstæðum. Í góðæri þegar mikið traust er til banka halda slík viðskipti áfram án sjáanlegra vankvæða en þegar kreppir að snýst dæmið við, vantraust skapast og menn vilja í auknum mæli sjá reiðufé eða jafnvel flytja fé sitt til annarra landa þar sem ávöxtun er betri.
Við munum öll eftir því hvað gerðist við fall íslensku bankanna. Þá hvarf traustið og allir vildu taka út reiðufé sitt þótt augljóslega gæti aðeins lítill hluti fengið sitt kærkomna reiðufé þar sem reiðufé á hvern fjárráða landsmann ekki nema örlítill hluti af lausu bankainnstæðunum.
Í raun má segja að jafnvel þótt viljinn væri fyrir hendi þá gæti sitjandi ríkisstjórn, með einhvern vott af skynsemi, ekki gert neitt annað en að skerast í leikinn og bjarga bönkunum með einum eða öðrum hætti sé bankakreppa í uppsiglingu. Slík björgun er þó ekki án vankvæða heldur er hún í formi margra ára skuldsetningar með tilfallandi lífskjaraskerðingu.
Það gengur ekki mikið lengur að bankar geti búið til ígildi peninga í formi innstæðna, lánað innstæðurnar út verðtryggðar á himinháum vöxtum, þanið út kerfið, stuðlað að efnahagslegum óstöðugleika, þrýst á magnþrungnar eignatilfærslur sem enda allar á því að bankinn verður ríkari og valdameiri á meðan flestir þeir sem taka lán frá bankanum verða skuldsettari og efnaminni.
Mörg teikn eru á lofti um að bankarnir séu að hefja annað skeið taumlausrar framleiðslu á innstæðum og ef ekkert verður gert mun það hafa afdrifaríkar afleiðingar. Við skulum vona svona stuttu eftir hrun að ráðamenn þjóðarinnar sofi ekki á vaktinni.
Raunhæf lausn er í boði eins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis kom inn á og í henni felst að banna bönkum, öðrum en Seðlabanka Íslands, að búa til innstæður. Með því er enginn að tala fyrir því að bönkum verði bannað að lána, aðeins að þeir þurfi að eiga fyrir láninu sem þeir ætla sér að lána eða með öðrum orðum að það sé raunveruleg innstæða fyrir innstæðunni.
Reykjavík 5. maí 2014
Viðar H. Guðjohnsen
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 7. maí 2014
17.10.2013 | 09:39
Skilvirkari samgöngur
17.10.2013 | 09:37
Misbeiting valds
10.7.2013 | 19:11
Bergdís Jónsdóttir - Minningargrein
14.3.2013 | 20:25
Kraftmikill landsfundur
10.3.2013 | 11:50
Landsfundur
3.2.2013 | 14:50
Sala Landsvirkjunar
18.11.2012 | 08:00
Þræll bankans
23.10.2012 | 17:35
Niðurrifstal fjármálaráðherra
12.10.2012 | 10:30