9.10.2009 | 14:17
Var Jón Sigurðsson frjálslyndur þjóðernissinni ?
Á því eina ári sem ég hef sent inn greinar til morgunblaðsins um málefni íslensku þjóðarinnar hefur oftar en ekki komið upp ein og ein athugasemd þar sem skoðunum mínum hefur verið líkt við rómantíska þjóðernisstefnu.
Fyrir mér var þjóðernisstefnan hulin ráðgáta þar sem hún hafði oft verið sett í samhengi við eitthvað illt en á sama tíma vissi ég líka að Skoski þjóðernisflokkurinn ,sem nú er orðinn stærsti stjórnmálaflokkur Skotlands með um 37% fylgi, er ekki flokkur sem byggir á einhverju illu, mannvonsku eða hatri.
Þess vegna núna rúmu ári eftir að ég skrifaði greinina ,,Ísland fyrir Íslendinga - um hvað snýst málið" ákvað ég að leggjast í smá rannsóknarvinnu og lesa mér til um þessa svokölluðu þjóðernisstefnu sem hefur hér á Íslandi verið blásin upp sem ill og ætti helst að úthýsa hvort sem almenningi þóknast eða ekki.
Það sem kom mér hvað mest á óvart í þeirri rannsóknarvinnu var að það er ekki til einhver ein ákveðin þjóðernisstefna heldur eru til nokkrar þjóðernisstefnur sem eru mjög mismunandi þótt allar hafi þær það sameiginlegt að horfa á heiminn sem samansafn af mismunandi þjóðum með mismunandi tungumál og lífsskoðanir.
Andrew Heywood stjórnmálafræðingur tekur fyrir í bók sinni Political ideologies fjórar helstu þjóðernisstefnurnar en þær eru: Frjálslynd þjóðernisstefna (Liberal nationalism) sem ég mun fara í nánar, Íhaldssöm þjóðernisstefna (Conservative nationalism), Útþenslu þjóðernisstefna (Expansionist nationalism) og Eftirnýlendu þjóðernisstefna (Anticolonial and postcolonial nationalism).
Frjálslynd þjóðernisstefna er elsta form þjóðernisstefnu og á rætur sínar að rekja til frönsku byltingarinnar og fyrir marga byltingarsinna í Evrópu á þeim tíma voru engin skýr skil á milli frjálslyndisstefnu annars vegar og svo þjóðernisstefnu hins vegar.
Frjálslyndisstefnan byggðist á frelsi einstaklingsins og frjálslynda þjóðernisstefnan byggði á frelsi þjóðarinnar til sjálfsákvörðunarréttar sem og einstaklingsfrelsi þjóðfélagsþegnanna.
Frjálslynd þjóðernisstefna er frjálslynd í tvennum skilningi: Í fyrsta lagi þá er frjálslynd þjóðernisstefna mótfallin öllum erlendum yfirráðum eða kúgunum hvort sem þau yfirráð eru fjölþjóðleg sambandsríki eða nýlenduþjóðir. Í öðru lagi þá stendur frjálslynd þjóðernisstefna fyrir þá hugsjón um sjálfsstjórn þjóðarinnar, þar að segja að það séu borgararnir sem ráði yfir þjóðstjórninni en ekki þjóðstjórnin yfir borgurunum.
Þá trúa frjálslyndir þjóðernissinnar að þjóðir séu jafnar í þeim skilningi að engin þjóð sé annarri betri.
Fyrir frjálslyndan einstakling þá er þjóðernisstefnan ekki í til í þeim skilningi að hún kljúfi þjóðir frá hvor annarri, ýti undir vantraust, hvetji til vopnakapphlaups og hugsanlegan stríðsrekstur. Þvert á móti skapar þjóðernisstefnan sameiningu innan þjóðarinnar og hvetur til bræðralags meðal nærliggjandi þjóða með virðingu fyrir þjóðlegum réttindum að sjónarmiði.
Í titlinum á þessari grein varpaði ég fram þeirri spurningu hvort Jón Sigurðsson, þjóðarhetja Íslendinga, hefði verið frjálslyndur þjóðernissinni og er ég sjálfur þess fullviss um að það hafi hann svo sannarlega verið.
Reykjavík 19. mars 2008
Viðar H. Guðjohnsen
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 19. apríl 2008