Bergdís Jónsdóttir - Minningargrein

Nú er hún góðhjartaða amma mín fallin frá og með sanni má segja að þar hvarf úr lífi mínu kona sem var bæði hjartahrein og réttsýn.

Eins og hið fallega smáblóm sem vaknar í morgunsólinni, blómstrar í logninu innan um hið græna gras, eins og hið tæra vatn sem rennur niður hlíðar fjallsins, eins og norðurljósin, stjörnurnar og tunglið sem lýsa upp hinn rauðbláan næturhimininn á rólegu vetrarkvöldi var hún amma mín alltaf bjartsýn, alltaf tær og alltaf róleg.

Það var alltaf þægilegt að vera í kringum hana ömmu mína og þurfti ekki alltaf mörg orð. Stundum var nóg að sitja í kærleiksríku umhverfi, hlusta á vindinn leika um stofugluggana og njóta þess að vera með þessari góðu konu.

Þegar ég hugsa til baka um allar þær góðu minningar sem ég hef af henni ömmu minni leitar hugur minn oftar en ekki til barndóms míns og þá einna helst til þeirra góðu dæmisagna sem hún amma mín sagði mér; sögur af hinum réttláta Salómon konungi, Samson hinum sterka, Andróklesi og ljóninu. Allt voru þetta dæmisögur um réttlæti og mikilvægi vináttu sem bæði mótuðu mig og styrktu. Aftur og aftur gat ég heyrt þessar sögur og aldrei fékk ég nóg.

Ég á sannarlega eftir að sakna þeirra tíma að sitja með henni ömmu gömlu, skjótast út í bakarí til að kaupa rúnstykki fyrir okkur bræðurna, horfa á eftir hinni duglegu konu fara í sínar daglegu gönguferðir; þrátt fyrir blindu, þrátt fyrir aldur og þrátt fyrir lélega heyrn.

Hún var sannarlega góð og dugleg kona hún amma mín. 

Ég kveð þig kæra amma,
kveð í hinsta sinn,
kærleiksríka kona,
kærleikann þinn. 

 

Reykjavík 10. júlí 2013
Viðar H. Guðjohnsen

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband