3.2.2013 | 14:50
Sala Landsvirkjunar
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins nálgast og virðist sem menn séu farnir að viðra þá hugmynd fyrir næsta kjörtímabil að selja Landsvirkjun, opinbert orkuframleiðslufyrirtæki sem framleiðir 73% allrar orku á Íslandi, upp í skuldir sem mynduðust þegar banka- og peningakerfið hrundi.
Hefur helst verið rædd sú hugmynd að selja Landsvirkjun til íslenskra lífeyrissjóða með einhverslags forkaupsrétt íslenska ríkisins sem allir eru þó sammála um að verði aldrei nýttur vegna þess hreinlega að ríkið myndi aldrei hafa bolmagn til slíkra kaupa.
Það kann að sýnast fýsilegur kostur að selja Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna en þó þarf að skoða þær hugmyndir með sérstakri varfærni í ljósi þess hvernig lífeyrissjóðirnir eru reknir; sjóðir sem hafa tapað rétt undir 500 milljörðum af lífeyri landsmanna, sjóðir sem hafa skorið niður réttindi lífeyrisþega um 130 milljarða frá hruni og þurfa um 700 milljarða til að geta staðið við þær skuldbindingar sem búið er að lofa sjóðsfélögum. Hver verður til að mynda arðsemiskrafan hjá lífeyrissjóðum með slíkar skuldbindingar á bakinu? Mun þetta enda með því að orkuverð til almennings mun hækka? Gleymum því ekki að vegna legu landsins er Ísland stærri hluta ársins bæði kalt og dimmt.
Það þarf engan sérfræðing til að sjá að þær arðsemiskröfur sem gerðar verða til Landsvirkjunar verða gífurlegar við það eitt að illa reknir lífeyrissjóðir með miklar skuldbindingar á bakinu eignast hana. Það er vonandi ekki vilji manna að Íslendingar sitji í dimmum og köldum húsum yfir hinn langa vetrartíma.
Þessi hugmynd um að selja Landsvirkjun hefur einnig þann stóra galla hún er óafturkræf. Landsvirkjun verður bara einkavædd einu sinni og því skulum við halda til haga. Það er engin ríkisstjórn sem mun standa fyrir ríkisvæðingu þótt orkuverð fari hér upp í hæstu hæðir með tilfallandi lífskjaraskerðingu.
Þá er það einnig spurnarefni hvort Landsvirkjun verði eins og Hitaveita Suðurnesja seld fyrir krónur sem svo hríðfalla í verði enda liggur það fyrir að krónan gæti hrunið. Það væri nú varla gott að selja fyrirtæki sem framleiðir 73% orku landsins fyrir einhverjar krónur sem verða svo verðlausar.
Í þessu stóra máli er það afar nauðsynlegt að skynsemin fái að ráða för en ekki enn ein hugmyndin, sem gengur þvert á vilja þjóðarinnar, um róttækar breytingar á kerfi sem hefur reynst okkur Íslendingum vel. Slík hugmynd mun bara valda illindum og deilum.
Þess vegna er það afar nauðsynlegt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggist gegn öllum áformum um að einkavæða Landsvirkjun enda á slíkur ágreiningur ekki að vera það vegnesti sem flokkurinn ætlar með inn í komandi kosningar; ágreiningur um hvort einkavæða eigi Landsvirkjun eða ekki.
Slík deila er ekki eitthvað sem þjóðin þarf á þessum tímapunkti. Væri frekar betra að skoða hvað þarf að laga í banka- og peningakerfinu fyrst og laga það sem laga þarf. Koma á stöðugleika og skera niður hjá hinu opinbera.
Það liggur ekkert á að einkavæða Landsvirkjun. Það liggur hins vegar á að koma á nauðsynlegum umbótum í peninga- og bankakerfinu, umbótum sem geta meðal annars lækkað skuldir hins opinbera. Gleymum ekki að heilbrigt banka- og peningakerfi er lífæðin í heilbrigðu viðskiptaumhverfi.
Það er von flestra landsmanna að næsta ríkisstjórn, sem verður vonandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, fari ekki að valda enn meiri reiði og deilum í samfélaginu um eitthvað mál sem má bíða. Vegnestið okkar á ekki að vera ágreiningur um hvort einkavæða eigi Landsvirkjun eða ekki. Ítrekað skal að þjóðin þarf ekki slíkan ágreining; svo sannarlega ekki.
Düsseldorf 28. janúar 2013
Viðar H. Guðjohnsen
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 1. febrúar 2013