Niðurrifstal fjármálaráðherra

Þeir uppskera mikla fyrirlitningu þeir einstaklingar sem tala niður sinn eigin þjóðargjaldmiðil; enda er það svo að slíkir einstaklingar, sem hvorki hafa trú á sinni eigin þjóð né sjálfstæðinu, geta beinlínis verið hættulegir efnahagsástandi þjóðarinnar séu þeir komnir í valdastöður.

   Það leið ekki langur tími frá því að Katrín Júlíusdóttir, hinn nýi fjármálaráðherra Íslands, tók við Fjármálaráðuneytinu þar til hún fór að grafa undan þjóðargjaldmiðlinum. Málaði fjármálaráðherrann afar dökka mynd af íslensku krónunni við alþjóðlegu fréttastofuna Bloomberg, lýsti henni sem gjaldmiðli í dauðateygjunum, sagði m.a. að ef Íslendingar vildu halda áfram í krónuna þyrfti þjóðin að búa við gjaldeyrishöft til frambúðar og til að toppa fáviskuna ákvað fjármálaráðherrann að loka augunum fyrir upplausnarástandinu á evrusvæðinu með því að benda á evruna sem einhverja framtíðarlausn fyrir íslensku þjóðina. Fyrir utan niðurrifstalið lætur enginn heilvita einstaklingur út úr sér slíka fávisku um evrusvæðið á þessum tímum.

   Skiljanlega vill enginn halda í núverandi peningakerfi þar sem bankar stýra að stærstum hluta því peningamagni sem er í umferð og geta með því skapað stórhættulegar efnahagssveiflur, þanið út kerfið og tekið til sín hagnað sem ekki er til en þrátt fyrir það er engin þörf fyrir niðurrifstal á erlendri grundu. Á erlendri grundu eiga íslenskir stjórnmálamenn að koma fram sem órjúfanleg og samstíga heild sem vinnur að hagsmunum Íslands.

   Varla er það í verkahring fjármálaráðherra Íslands að vera með niðurrifstal um þjóðargjaldmiðilinn, niðurrifstal sem mun engu áorka öðru en hugsanlega verri lífskjörum á Íslandi og minni tiltrú á íslensku þjóðinni.

   Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað fer í gegnum huga slíkra ráðamanna. Er undirlægjuháttur þeirra orðinn svo mikill að þeir finna einhverja þörf á því að upphefja sig á kostnað þjóðarinnar og það á einhvern afar undarlegan og sjúkan máta? Varla geta þeir ráðamenn sem gefa út slíkar yfirlýsingar verið það sjálfumglaðir að þeir telja niðurrifstal á erfiðum tímum uppbyggilegt.

   Það er í raun alveg ótrúlegt að fjármálaráðherra þjóðar skuli gefa út svona yfirlýsingar og hlýtur að teljast einsdæmi. Varla myndi fjármálaráðherra Noregs halda sínu starfi ef hann færi í slíka niðurrifsstarsemi á norsku krónunni. 

   Fjármálaráðherra sem fer um erlend ríki og lýsir yfir veikleikum Íslands og stundar slíka niðurrifsstarfsemi er ekki á vetur setjandi. Væri honum nær að vinna sína vinnu og að berjast fyrir betra peningakerfi á Íslandi.

   Íslenska krónan er okkar styrkur, hún er hluti af sjálfstæðinu og með krónuna sem gjaldmiðil geta Íslendingar skapað, frjálsara, jafnara og betra þjóðfélag.

 

 

Düsseldorf 12. október 2012
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 22. október 2012   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband