Valdníðsla Evrópusambandsins

Þeir fara nú því sem næst huldu höfði, hinir svokölluðu evrópusinnar; þeir sem eitt sinn fóru mikinn í neikvæðnistali sínu í garð fullveldis og frelsis íslensku þjóðarinnar.

   Jafnvel forsætisráðherra þjóðarinnar, sem var fremstur í flokki þeirra sem keyrðu aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu í gegnum Alþingi, þorir ekki lengur að nefna aðildar- og aðlögunarferlið í stefnuræðu sinni.

   Hinn almenni Íslendingur furðar sig á því hvert þessir menn sem vilja lúta valdi ráðamanna í Brussel fóru; því varla gufuðu þeir upp. Sennilega eru þeir í felum vegna þeirra frétta sem nú berast frá Brussel; fréttir sem segja frá þeim viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gegn Íslandi sem Evrópuþingið samþykkti þann 12. september síðastliðinn.

   Þing Evrópusambandsins (sem á að vera friðarbandalag vinaþjóða) hefur nú eftir allt það sem gekk á í Icesave deilunni, eftir allar þær hótanir sem Evrópusambandið beitti í þeirri deilu, samþykkt að beita viðskiptaþvingunum í deilu sem snýst um hvort við Íslendingar megum veiða makríl og það í okkar eigin landhelgi.

   Skömmin hlýtur að vera mikil hjá þeim sem tala fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu um þessar mundir en við skulum ekki gleyma því að þeir eru lúmskir og hafa þessir sömu einstaklingar til að mynda, ef út í það er farið, lengi vel barist gegn íslenskum sjávarútvegi og íslenskum landbúnaði með afar ljótum aðferðum m.a. undir því yfirvarpi að ,,auka erlenda fjárfestingu". Virðist sem að í þeirra augum sé allt slæmt sem íslenskt er og virðist þeim sárna sérstaklega þegar þeir sjá þjóðina auka samheldni sína í kringum sjálfstæðið; þess vegna þrátt fyrir þeirra tímabundnu felur koma þeir að lokum til baka.

   Þessir svokölluðu evrópusinnar, sem með miklum undirlægjuhætti, voru til að mynda fyrstir til að heimta að ríkið myndi borga tap banka sem ekki aðeins voru í einkarekstri heldur þar að auki voru staðsettir á Bretlandseyjum og í Niðurlöndum; með því vildu þeir varpa erlendum skuldum óreiðumanna yfir á hina íslensku þjóð með tilfallandi lífskjaraskerðingu, gjaldmiðilsveikingu og auknum skattaálögum. Skal því einnig haldið til haga að þessir sömu menn voru einnig fyrstir til að heimta óeðlilega háar lántökur frá erlendum sjóðum, lántökur sem nú eru farnar að vinda upp á sig.

   Mönnum er spurn um hverslags stjórnvöld leyfa slíka aðför og slíkar kúganir af hálfu Evrópusambandins eins og þær sem voru samþykktar á Evrópuþinginu þann 12. september. Menn sem styðja stjórnarandstöðuna spyrja sig einnig um hvar hún sé á þessum erfiðu tímum.

   Illa er komið fyrir þjóðinni þegar þingmenn hennar sofa og rífast innbyrðis um hver er betri og hver er verri þegar stormur er í aðsigi. Þessi aðför Evrópusambandsins er þó ekki okkar eina vandamál.

   Rétt eins og nefnt var hér að ofan þá er skuldastaða þjóðarinnar orðin afar óhugnarleg; það óhugnarleg að þjóðin þarf að borga árlega vexti hátt í það sem samsvarar að reka hér gott heilbrigðiskerfi á ári hverju.

   Þessi alvarlega staða hlýtur að vekja einhverja til umhugsunar.

   Að öllu jöfnu er mikið verk framundan og þessi sofandaháttur alþingismanna er farinn að vera nokkuð óþolandi. Það þjónar litlu að gagnrýna það sem aflaga fer ef  engin breytingaráætlun er til staðar. Það sjá allir skynsamir menn að núverandi bankakerfi, sem gefur bönkum það vald að auka peningamagn í umferð, er rammgallað og veldur miklum og hættulegum efnahagssveiflum.

   Það sjá einnig allir skynsamir menn að það er ekkert réttlæti fólgið í því að sum fyrirtæki fái fleiri milljarða afskriftir og fái að halda áfram rekstri sínum í óbreyttri mynd. Slíkt umhverfi skekkir samkeppnisstöðu og fælir frá sterka aðila sem íhuga fjárfestingar; því enginn vill fjárfesta í samkeppnisumhverfi sem mismunar.

   Menn mega ekki kikna í hnjánum í hvert sinn sem einhver sérhagsmunaaðili sem vill halda í óbreytt og ónýtt bankakerfi stígur fram. Það eru aðeins mannleysur sem kikna í hnjánum og hlaupa í felur. Menn eiga heldur aldrei að gefast upp og menn eiga aldrei að láta ranglæti viðgangast.

 

Düsseldorf 2. október 2012
Viðar H. Guðjohnsen

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 11. október 2012   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband