27.1.2012 | 21:54
Leiðtogalaus þjóð
Ekkert lát virðist vera á þeirri sundrungu, því stjórnleysi og þeirri spillingu sem einkennt hefur stjórnmálastétt Íslands. Þingmenn ganga kaupum og sölum eins og um ódýra skiptivöru sé að ræða. Ekki þarf meira en lof um ráðherraembætti, þótt embættistíminn verði með svo ólíkindum stuttur að engu getur mögulega verið hrint í framkvæmd, til þess að fá hina og þessa þingmenn til að selja samvisku sína. Virðist sem þingmenn, sem fara að hluta til með löggjafarvaldið, selji sig afar ódýrt fyrir takmarkaða hlutdeild að framkvæmdarvaldinu og eiga þátt í að óþjóðkjörnir formenn stjórnmálaflokka, ásamt ráðgjöfum, í krafti samtvinningar löggjafar- og framkvæmdarvalds ráða ekki aðeins lagasetningu heldur einnig framkvæmd þeirra.
Sannkallað óþjóðkjörið fáræði virðist búið að festa sig í sessi, fáræði sem hefur nánast ótakmarkað vald til að bæði setja lög, staðfesta og hrinda í framkvæmd. Ekkert valdajafnvægi er til staðar.
Gallinn við þetta fyrrnefnda óþjóðkjörna fáræði felst í því að þjóðin hefur lítið sem ekkert um það að segja hver fer með æðstu stöðu framkvæmdarvaldsins og skipar við hlið sér hóp ráðherra. Getur þá útkoman oft á tíðum orðið að hópur sjálfumglaðra uppskafninga, sem reynir frekar að þóknast fámennum valdahópum samfélagsins frekar en þjóðinni sem heild, er valinn til að gegna ráðherraembættum.
Það ástand sem skapast hefur í íslensku stjórnmálalífi er ekki eðlilegt og ekki ásættanlegt. Það er óásættanlegt að þing þjóðarinnar með miklum meirihluta verji hagsmuni Breta og Hollendinga þegar íslenska þjóðin þarf svo sannarlega á vörnum að halda.
Það getur varla talist eðlilegt að leiðtogar þjóðarinnar tali hvívetna gegn hagsmunum hennar, tali fyrir eyðileggingu á gjaldmiðli hennar, tali fyrir afnámi fullveldis og komist upp með það. Þá er það afar óeðlilegt að stjórnmálamenn tali fyrir stórfelldri landsölu til útlendinga og að orkuframleiðsla fari í hendur einkaaðila þegar vitað er að slík framkvæmd mun engu góðu áorka. Þeir stjórnmálamenn sem tala fyrir slíku geta ekki annað en uppskorið algjöra fyrirlitningu almennings.
Hvar er þjóðernisást þeirra sem á þingi sitja og vinna gegn gjaldmiðli þjóðarinnar og hafa með svikum unnið gegn sjálfstæðinu, þeirra sem vilja selja sjálft landið til erlendra stórfjárfesta og hafa nú þegar komið stórum raforkufyrirtækjum í hendur útlendinga. Skal allt selt á þessum dimmu tímum? Er forsjálnin engin eða er verið að borga þessum ráðamönnum í falda kosningasjóði?
Gleymum ekki hvernig sérhagsmunakerfi bankanna borgaði stjórnmálaflokkum tugi milljóna í kosningasjóði. Það var nú einungis hluti sem komst upp. Það mál var aldrei rannsakað að fullu þegar í raun hefði átt að setja á fót stórfellda lögreglurannsókn. Varla voru þessir styrkir neitt annað en mútur.
Gleymum því heldur ekki að bankamenn reyndu að bera fé á fyrrum forsætisráðherra Íslands að hans eigin sögn og að það sitja menn jafnt sem makar á þingi sem fengu stórfelld lán sem að lokum þurfti aldrei að endurgreiða. Þessi mál voru aldrei rannsökuð. Hvað eru annars því sem næst vaxtalaus lán til stjórnmálamanna sem aldrei þarf að endurgreiða annað en mútur?
Tölum nú ekki um þá þingmenn sem fengu persónulega fleiri milljónir í kosningastyrki frá þeim sem ætlað er að hafa tæmt íslensku bankana innan frá, þá þingmenn sem flugu með einkaþotum bankamanna, og þeim þingmanni sem ætlað er að hafa gengið á fund forsvaramanna Landsbankans örskotsstundu fyrir hrun, í vitna viðurvist, og sagst vera ,,þeirra maður" eins viðurstyggilega og það hljómar. Hvernig getur slíkur maður setið sem þingmaður, maður sem hefur heitið örfáum hópi bankamanna algjöra hollustu?
Er það furða að milljarðamæringar fái nú, þegar verið er að kúga fjölskyldurnar í landinu, afskriftir upp á fleiri tugi milljarða á sama tíma og þeir fá að halda sínum eignum, fjármunum og fyrirtækjum?
Hvernig horfir þetta við almenningi sem þarf að endurgreiða öll sín lán og það með slíkum okurvöxtum að engin svipuð dæmi finnast í hinum vestræna heimi nema þá helst að skoðuð séu lánakjör skipulagðra glæpahópa? Breytir engu hvort um sé að ræða fjölskyldur sem ekki geta haldið jól eða fjölskyldur sem ekki geta keypt föt á börnin sín. Afskriftirnar fara til þeirra sem eyðilögðu landið svo að þeir geti haldið áfram sukkinu.
Þarf að kúga þjóðina svo harkalega að hún sér ekki annað í spilunum en að ganga á svig við landslög? Vilja ráðamenn landsins misbjóða almenningi upp að því marki hann tekur lögin í sínar eigin hendur? Í hvaða stöðu er hinn almenni fjölskyldufaðir sem borgar helming sinna tekna til kerfisins sem í þakkarskyni snýr baki í hann, faðir sem alla tíð hefur sýnt kerfinu virðingu, alla tíð farið eftir landslögum en getur nú hvorki haldið jól né séð fyrir fjölskyldu sinni því kerfið er að setja allt fjármagnið í hina fáu?
Sannarlega er illa komið fyrir þjóðinni þegar leiðtogar hennar á erfiðum tímum brugga henni launráð. Þjóð með slíka leiðtoga er leiðtogalaus þjóð.
Düsseldorf 17. janúar 2012
Viðar H. Guðjohnsen
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 27. nóvember 2012