29.3.2010 | 20:01
Barátta þjóðarinnar
Það verður að teljast til fádæmis að þjóð í hinum vestræna heimi geti með elju sinni hrakið ríkisstjórn frá völdum.
Elja og þrautseigja Íslendinga er mikil. Dugnaður og þjóðernisstolt skipar stóran sess í hjarta þjóðarinnar enda hefur henni jafnvel tekist að sigra heilu heimsveldin í stórum milliríkjadeilum, má þá einna helst nefna landhelgisdeiluna og sjálfstæðisbaráttuna.
Einhver gjá virðist því miður hafa myndast milli ráðamanna þjóðarinnar, þar að segja þeirra sem lagalega eiga að vinna fyrir þjóðina, og þjóðarinnar þegar kemur að þjóðar og þjóðernisstolti.
Á meðan þjóðin berst fyrir sjálfsákvörðunarrétti sínum eru ráðamenn að vinna gegn honum, á meðan þjóðin berst hetjulega gegn kúgun, valdníðslu og niðurlægingu erlendra ríkja og stórríkjasambanda taka ráðamenn þjóðarinnar slíkri valdníðslu fagnandi og í sumum tilfellum hvetja til aukinnar niðurlægingar og þjóðlegrar kúgunar.
Jafnvel hinir hógværustu menn íhuga að rísa upp gagnvart slíkum ráðamönnum, skiljanlega, enda getur þjóðin ef illa fer endað í langvinnum, ef ekki ævarandi, skuldaflækjum með tilfallandi lífskjaraskerðingum.
Langlundargeð þjóðarinnar er ekki óendanlegt og í fleiri en einu máli er henni misboðið.
Sennilega verður litið aftur til þessara tíma og horft með stolti á framgöngu þjóðarinnar sem hefur sannarlega sýnt mátt sinn og megin þótt lymskuaðferðum hafi verið beitt gegn henni. Sameinuð stóð hún og stendur enn. Ósigur verður aldrei samþykktur af hálfu hennar, fullveldisafsal ekki heldur.
Kerfisbreytingar eru nauðsynlegar í okkar þjóðfélagi. Koma þarf í veg fyrir áframhaldandi alræðisvald ríkisstjórnar yfir löggjöfinni, hvers flokka sem hún er. Í því samhengi verður það að teljast varhugavert að þingstörf liggi niðri í lengri tíma þegar ríkisstjórn er löskuð og/eða óstarfhæf eins og kemur fyrir.
Samkvæmt íslensku stjórnarskránni, sem og í flestum lýðræðisríkjum, á ríkisstjórn aðeins að fara með framkvæmdarvald þótt hefð sé fyrir því hérlendis að sitjandi ríkisstjórn, á hverjum tíma og breytir þá engu hvers flokka, taki sér alræðisvald yfir löggjafanum. Með þessu fyrrnefnda alræðisvaldi hefur formönnum, oftast tveggja, stjórnmálaflokka í gegnum tíðina tekist að fara þvert á vilja þjóðarinnar í hverju málinu á fætur öðru.
Sé stjórnarskráin skoðuð segir í 15. gr. hennar: ,,Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim." Þessi grein stjórnarskrárinnar, eins og því miður margar, hefur ekki verið virk. Hugsanlega er að þessi slæma hefð hafi skapast þegar Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, var þingvalinn forseti og hugsast getur að hann hafi hreinlega ekki viljað taka að sér slíkt vald óþjóðkjörinn. Augljóst er þó að forsetinn á samkvæmt stjórnarskrá að skipa ráðherra en ekki óþjóðkjörnir formenn stjórnmálaflokka.
Von hlýtur að skapast í hugum og hjörtum margra þegar litið er til þess að forsetakosningar fara fram 2012. Vonandi stígur fram, í þeim kosningum, leiðtogi sem er óhræddur að taka sér það vald sem sjálf stjórnarskráin ekki aðeins heimilar heldur segir til um.
Löngu er orðið tímabært að stjórnarskráin verði virt. Það má ekki líðast að sjálf grundvallarréttindi Íslendinga séu virt að vettugi til þess eins að óþjóðkjörnir formenn stjórnmálaflokka með örfá atkvæði á bakvið sig hafi alræðisvald yfir sjálfu Alþingi Íslendinga.
Reykjavík 17. mars 2010
Viðar H. Guðjohnsen
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 27. mars 2010